137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er er það löngu orðinn plagsiður núverandi ríkisstjórnar að dylja fyrir Alþingi upplýsingum ef hægt er. Nú gerðist það á fundi í gær að fram kom hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skýrsla sem vitað er að hefur legið í utanríkisráðuneytinu frá mánaðamótum apríl/maí, um áhrifin af inngöngu Íslands í Evrópusambandið á landbúnaðinn, hefur ekki borist hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta er auðvitað einsdæmi að grundvallarskýrsla um áhrif aðildar að Evrópusambandinu á grundvallaratvinnuveg okkar skuli ekki vera kynnt fagráðherra. Þetta er auðvitað dæmi um vinnubrögð sem ekki eru líðandi.

Það er heldur ekki líðandi að það skuli vera svo að Alþingi fái ekki í hendur þessar upplýsingar. Þessi skýrsla er unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins þar sem reynt er að meta hver yrði staða íslensks landbúnaðar miðað við það að við fengjum þá niðurstöðu sem Finnar fengu í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Því hefur mjög verið flaggað og m.a. í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis að það sé þannig að ef við göngum í Evrópusambandið séu miklir möguleikar fyrir landbúnaðinn, m.a. vegna þess að við fáum skjól með svipuðum hætti og Finnar fengu eftir að þeir gengu í Evrópusambandið. Það sem hér um ræðir er auðvitað ákveðin aðferð við kúgun með því að halda upplýsingum frá bæði fagráðherra og Alþingi og þetta er auðvitað ekki líðandi. Ég geri þá kröfu að áður en umræðu lýkur í dag berist þessi skýrsla til þingmanna. Það er út af fyrir sig til marks um það geðleysi sem ríkir hjá vinstri grænum við að láta Samfylkinguna kúga sig í þessu máli sem öllum er orðið ljóst en það gengur ekki að kúga Alþingi (Forseti hringir.) og Alþingi lætur ekki bjóða sér að vera kúgað með þeim hætti að fá ekki þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka afstöðu til þessa mikilvæga máls.