137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

þingfundur, nefndafundir og upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hefði nú talið að hv. þingmaður ætti að fá að ljúka máli sínu. En mig langar til þess að vekja athygli á því að á fundi fjárlaganefndar í morgun komu þær upplýsingar fram að þingfundur mundi hefjast klukkan tíu. Þessar upplýsingar komu flatt upp á marga þingmenn meiri hlutans sem höfðu ekki áttað sig á þessu og þetta gerði það að verkum að Seðlabankinn þurfti að fara fyrr út af fundi fjárlaganefndar en ella og við fengum ekki svör við þeim brýnu spurningum sem fundarmenn höfðu lagt fyrir seðlabankastjóra og þá sérfræðinga sem með honum voru.

Ég vil bara beina því til hæstv. forseta að svona vinnubrögð eiga ekki að koma aftur fyrir og að hann (Forseti hringir.) beini því til fjárlaganefndar að Seðlabankinn komi aftur þar til þess að þingmenn geti fengið að klára að fá svör við þeim spurningum sem þar voru lagðar fram.