137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

þingfundur, nefndafundir og upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég verð að taka undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar að ég veit ekki til þess að það sé komið neitt samkomulag um að fara að ljúka þingstörfum hérna. Því er náttúrlega í hæsta máta óeðlilegt að forseti gefi sér að það sé komið að þessum miklu lokum og geti þá hugsanlega farið í sumarfrí eða gert eitthvað annað því hér liggja fyrir mjög mikilvæg mál, mál sem við viljum gjarnan fá að ræða betur, mál þar sem hafa verið að koma nýjar og nýjar upplýsingar fram. Það var náttúrlega algjörlega óásættanlegt núna í morgun að þegar menn voru rétt að byrja að spyrja spurninga, mjög mikilvægra spurninga að þá þurfti að ljúka fundi þrátt fyrir að formaður nefndarinnar hafði óskað eftir því eða spurt hvort það væri möguleiki að fresta þingfundi. Þarna er verið að ræða mjög mikilvægar upplýsingar um hvernig framtíð Íslands lítur út.