137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú var tíðin að það var enginn ágreiningur um að það væri þjóðin sem gæfi lokasvarið um það hvort Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu. Nú er öldin greinilega önnur. Nú virðist stefna í að ekki sé einu sinni einhugur um að þjóðin fái að ráða í þessu mikilvæga hagsmunamáli sínu.

Leið ríkisstjórnarinnar er sú að efna til eins konar skoðanakönnunar og sé þess vegna ekki bindandi fyrir þingið. Meðferð málsins í þinginu hefur því að lokum illu heilli aukið á ágreininginn, jafnvel í máli þar sem góð sátt ríkti, um málsmeðferð ESB-málsins. Meðferð málsins í þinginu hefur því miður ekki aukið á sáttina eins og að var stefnt.

Nú er einfaldlega spurt að því hvort þjóðin eða þingið taki hina endanlegu ákvörðun í þessu veigamikla máli. Mér finnst ákaflega auðvelt að svara því. Ég segi já.