137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru fjórar meginástæður fyrir því að ég segi nei við þessari tillögu. Í fyrsta lagi treysti treysti ég ekki þeirri ríkisstjórn sem hér situr til að fara í þessa vegferð og leiða okkur í hana.

Í öðru lagi eru kostnaðurinn það mikill sem tilgreindur er, a.m.k. milljarður, og ég skil ekki hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra getur réttlætt það að setja slíka peninga í þetta um leið og hann þarf að skera niður í okkar stóra og mikla heilbrigðiskerfi.

Í þriðja lagi tel ég hér hafi verið sýnd vanvirðing varðandi aðkomu þjóðarinnar að þessu máli.

Í fjórða lagi og síðast en ekki síst er ekki farið eftir þeim skilyrðum sem flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti og er í stefnu flokksins. Það er svo langt frá því að það sé gert, því miður.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra. Þú berð mikla ábyrgð á því sem er að gerast hér í dag sem formaður þíns flokks, mikla ábyrgð, og því miður held ég, þó að ég voni að ég hafi rangt fyrir mér, að þetta verði svartur dagur í sögunni.