137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst upp til þess að lýsa stuðningi Framsóknarflokksins við þetta mál og láta í ljósi ánægju með hvernig vinnan hefur farið fram og hvernig samstaða hefur náðst um að ljúka málinu.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur setið í allsherjarnefnd fyrir okkar hönd og unnið þar að málinu og aðrir þingmenn hafa fylgst með í gegnum hana, í rauninni samkvæmt hennar upplýsingum. Ljóst er að menn hafa lagt töluvert á sig til þess að gera þessar breytingar þannig að þær virki og geri gagn og því ber að fagna. Verið er að eiga við stór og flókin mál sem eru flókin fyrir okkar réttarkerfi, rannsóknarkerfi og löggæslu. Það er ekki síst mikilvægt að þarna náist árangur í ljósi þess að margt bendir til að einnig séu miklir fjármunir í húfi og við verðum að gera allt sem við getum til þess að nálgast þá aftur.

Í ræðum þingmanna hafa komið fram vangaveltur um hvort rannsókn og eftirfylgni af henni eigi að vera á sama stað og annað. Ég hef velt því fyrir mér eftir að ég heyrði að dæmi eru um það víðar úr okkar kerfi að sömu aðilar rannsaka eða lýsa einhvers konar kærum í málum og úrskurða síðan jafnvel í þeim sjálfir. Dæmi um slíkt er að finna hjá skattinum. Þetta verður vonandi rætt hér undir öðrum lið og síðar, í haust jafnvel. Ég tel að þetta þurfi að skoða.

Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið varðandi að það hafi tekist að skapa raunhæfa umgjörð til þess að styrkja þetta embætti og þá rannsókn sem er í gangi. Ég vil líka taka undir orð hv. þm. Atla Gíslasonar um afleiðingar þessarar kreppu sem við glímum við í dag. Við erum farin að sjá þessar afleiðingar sem hann nefndi í ræðu sinni, þ.e. aukna tíðni afbrota. Við þurfum að vera reiðubúin að bregðast við þeim. Við þurfum að efla okkar almennu löggæslu til þess að geta staðist þann þrýsting sem er kominn nú þegar og verður því miður örugglega enn þá meiri með haustinu. Það er ekki gaman að ræða þetta á þessum nótum en ef við ætlum að læra af óförum annarra í ástandi eins og hér er eigum við að horfa á þennan þátt og bregðast við áður en illa fer með því að efla þá löggæslu og þær heimildir eða úrræði sem við eigum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég lýsi aftur og enn yfir ánægju með þetta frumvarp og þakka nefndinni fyrir að hafa unnið hratt og vel.