137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[15:01]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem óþarfi að hafa um það of mörg orð að uppruni þeirra frumvarpa sem hér liggja fyrir er alveg ljós. Hér er um að ræða EES-frumvörp sem hefur lengi legið fyrir að þyrfti að leiða í lög. Í því felst að sjálfsögðu ekki að orka félags- og tryggingamálaráðuneytisins fari í það eitt að leggja fram þessi mál hér. Það er auðvitað verið að vinna að réttarbótum á mörgum sviðum og ég fagna þeim orðum hv. þingmanns að hann sé tilbúinn að ræða slíkar réttarbætur. Það er alveg ljóst að við munum verða með frumvörp sem taka á ýmsum þáttum í atvinnuleysistryggingakerfinu, svo dæmi sé tekið, strax í haust, og það er ánægjulegt að heyra að hann boðar gott samstarf um þjóðþrifamál af slíkum toga.

Að öðru leyti þegar rætt er hér um atvinnumál almennt séð held ég að það væri líka full ástæða til þess að hv. þingmaður hefði frumkvæði að utandagskrárumræðu um stöðu á vinnumarkaði. Ég væri alveg tilbúinn að eiga við hann orðastað um aðgerðir og áherslur ríkisstjórnarinnar við þær kringumstæður. Eftir stendur að sjálfsögðu hitt að við þurfum, eins og hv. þingmaður sagði réttilega, að telja trú og von í atvinnulíf til þess að fyrirtækin sjái sér hag í því að halda fólki í vinnu og að atvinnuleysi aukist ekki. Þess vegna kemur mér mjög á óvart sú hugmynd hans að fara að fresta umræðum um Icesave-samkomulagið því að ég tók eftir því í dag að flokksbróðir hans, hv. þm. Pétur H. Blöndal, komst svo ágætlega að orði að þann samning væri hvorki hægt að samþykkja né fella. Ég held að það sé akkúrat mergurinn málsins, að í Icesave-samkomulaginu er að finna mikilvægan leiðarstein á þeirri vegferð okkar (Forseti hringir.) að við komumst inn í efnahagslegan stöðugleika og treystum (Forseti hringir.) atvinnu fólks í landinu með því að ganga frá því máli með sóma.