137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Fyrir skömmu samþykkti Alþingi lög um strandveiðar og á undanförnum vikum og mánuðum höfum við séð glitta í reynsluna af því fyrirkomulagi sem hér var samþykkt, illu heilli að mínu mati. Það hefur komið fram m.a. í Morgunblaðinu í dag að hátt í 500 bátar hafa nýtt sér þann möguleika að veiða samkvæmt hinum nýju lögum. Með öðrum orðum, gífurlegur fjöldi báta hefur farið inn í þetta kerfi til að veiða þann afla sem þó var búið að setja til hliðar sem sérstakan afla til að styðja við hinar veikari byggðir landsins. Ég vil því, frú forseti, beina máli mínu til hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og spyrja hana um skoðun hennar á þessu máli, á þeirri reynslu sem nú er komin.

Það er ljóst að ekki er verið að auka aflaverðmætið með þessu kerfi. Það er sami fjöldi fiska sem má veiða samkvæmt þessu kerfi eins og ætlað var með því fyrirkomulagi sem fólst í byggðakvótakerfinu. Það er ljóst, það eru ekki meiri tekjur. En það er líka orðið ljóst og sú spá sem kom fram í umræðum hjá okkur sjálfstæðismönnum hefur gengið eftir, að bátum sem færu á sjó til að veiða þennan takmarkaða afla mundi fjölga til mikilla muna og nú er það komið fram. Um 500 nýir bátar hafa hafið veiðar undir þessum formerkjum. Þetta er bara fyrsta árið, hv. þingmenn og frú forseti, sem þetta kerfi er við lýði. Þetta er fyrsta árið sem þýðir að næsta ár mun þessum bátum fjölga enn meira en dögunum fækkar jafnt og þétt sem þessir bátar mega vera á sjó, það dregur úr hagkvæmni kerfisins. Ég hefði haldið það, frú forseti, (Forseti hringir.) að á þeim tíma sem íslenska þjóðin þarf á að halda að í sjávarútvegskerfinu sé gætt ýtrustu hagkvæmni ættu menn að skoða mjög vandlega þá reynslu sem greinilega er komin af þessu kerfi.