137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin tekur í arf atvinnuleysi í sögulegu hámarki og atvinnulíf í miklum erfiðleikum í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Það er því eitt brýnasta verkefni stjórnvalda að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang með eðlilegum hætti og að því er unnið hörðum höndum með endurreisn bankakerfisins, stöðugleikasáttmála við aðila vinnumarkaðarins, aðgerðum í ríkisfjármálum sem stuðla að endurreisn efnahagskerfisins og fjölbreyttum vinnumarkaðsaðgerðum sem hrint hefur verið í framkvæmd.

Atvinnuleysið náði hámarki í apríl sl. þegar það fór í 9,1% en hefur verið að minnka síðan og var 8,1% í júlí. Og þær tölur sem berast á morgun frá Vinnumálastofnun um atvinnuleysi í landinu sýna að enn dregur úr atvinnuleysi. Skólafólki hefur gengið betur að fá vinnu í sumar en reiknað var með. Þegar það fer aftur í nám í haust eru þó horfur á að enn dragi úr atvinnuleysi en búast má við auknu atvinnuleysi aftur í vetur vegna samdráttar í mannvirkjagerð og tengdum greinum. Á landsbyggðinni allri hefur atvinnuleysi farið minnkandi undanfarna mánuði og ekki fyrirséð breytingar þar á og tel ég frjálsar strandveiðar vera þátt í því. Atvinnuleysi kvenna á höfuðborgarsvæðinu er áhyggjuefni. Það hefur aukist hlutfallslega og því mjög brýnt að standa vörð um velferðarkerfið og velja sem best um störf sem fyrir eru. Búast má við fjölgun gjaldþrota hjá fyrirtækjum þegar líður fram á haustið og veturinn og því aldrei brýnna en nú að halda áfram því endurreisnar- og uppbyggingarstarfi sem stjórnvöld vinna að og verja þau dýrmætu störf sem við höfum í dag og þann kraft og nýsköpun sem til staðar er í landinu til þess að vinna okkur út úr þessum hörmungum af manna völdum af okkar eigin vélarafli. Þar er stóriðja ekki sá vonarneisti sem við sjáum.