137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samráð við hagsmunaaðila um fyrningarleið.

26. mál
[14:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar ágætu umræður. Ég vil vekja athygli á því að þessum starfshóp er ætlað að taka fyrir atriði eins og tilgreind eru í verkefnalista og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, ef ég má vitna til þess, frú forseti, en þau eru að:

„a) stuðla að vernd fiskstofna b) stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar c) treysta atvinnu d) efla byggð í landinu e) skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar.“

Þarna eru fjölmörg atriði tínd til sem snerta þjóðarsátt um meðferð, eignarhald og nýtingu þessara auðlinda. En að sjálfsögðu á þjóðin þessa auðlind. Ég treysti starfshópnum ágætlega til að takast á við þessi verkefni. Ég tek undir þau sjónarmið hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur um kynjahlutföllin og það er alveg rétt að sett var sú krafa að þarna yrðu skipuð bæði karlar og konur. (Gripið fram í.) Margir tilnefningaraðilar sögðust bara hafa körlum á að skipa. En engu að síður held ég að því fólki sem valist hefur í nefndina sé alveg treystandi til þessara verkefna, eins og fram kemur í bréfinu sem ég las upp áðan, og ég treysti því að sá hópur sem falið er þetta vandasama hlutverk skili frá sér góðu áliti um málið. Ég tel reyndar að það sé í mjög góðum farvegi.