137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

fyrirtæki yfirtekin af bönkum og skilanefndum.

93. mál
[15:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra. Það sem mér leikur hugur á að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra um varðar það hvernig yfirtöku fyrirtækja af bönkum og skilanefndum hefur verið háttað, hvaða fyrirtæki hafa verið yfirtekin af bönkum og skilanefndum með beinum eða óbeinum hætti, og í öðru lagi hverjir skipa stjórnir þeirra og í umboði hverra.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að öll reynslan sem liggur að baki hverri rekstrareiningu sé nýtt með því að eins margir af fyrirtækismönnum og hægt er geti áfram tekið þátt í sigla í gegnum brimgarðinn og að þekking þeirra og reynsla komi þannig að notum fremur en kalla til utanaðkomandi menn sem hafa hvorki verkreynslu né rekstrarreynslu í viðkomandi fyrirtækjum. Mér er kunnugt um að í ákveðnum fyrirtækjum í bankakerfinu hefur einn maður frá sama banka verið settur í stjórnir fjölmargra fyrirtækja, allt að 40 fyrirtækja, hæstv. viðskiptaráðherra. Sá maður hefur státað af dugnaði sínum og snilld í þeim efnum. En það er ekki málið í sjálfu sér. Málið er einfaldlega það hvernig einn maður getur sinnt starfi af fullri alvöru og metnaði fyrir 40 fyrirtæki sem eiga við vanda að glíma. Það gengur auðvitað ekki upp. Þá er þetta komið út í sýndarmennsku og eitthvað sem er ekki nokkur lifandi leið að skilja eða meta nema að það skilar engum árangri. Það er alveg ljóst. Þetta vildi ég spyrja hæstv. viðskiptaráðherra um.