137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

ívilnanir og hagstætt orkuverð.

154. mál
[18:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja enn og aftur út í stjórnarsáttmálann. Af því að ég er búinn að gera það nokkuð oft í þessari umræðu skal því haldið til haga að það er ekki vegna þess að ég hafi verið að lesa hann núna heldur einfaldlega vegna þess að þessar fyrirspurnir eru búnar að bíða nokkuð lengi.

Það sem ég vil spyrja um snýr að hæstv. iðnaðarráðherra og varðar það sem segir um sóknarstefnu til framtíðar á bls. 9:

„Ríkisstjórnin vill efla græna atvinnustarfsemi, þar með talin verkefni þar sem hrein endurnýjanleg orka er nýtt á sjálfbæran hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar. Lögð verði áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum og hagstæðu orkuverði.“

Þetta er um margt athyglisvert og gott væri að fá nánari útlistanir. Það er augljóst að menn tóku mjög góðan tíma í að skoða og gera þennan sáttmála. Hann er mjög langur og ítarlegur en spurningin er: Hvað er nákvæmlega á ferðinni þarna? Við höfum heyrt umræðu um orkuverð. Við Íslendingar vitum að við eigum hagstæða, umhverfisvæna orku og erum í rauninni með einstaka stöðu í heiminum hvað það varðar. Oft hefur verið umræða um verðlagningu á þessari umhverfisvænu orku. Það kom örugglega mörgum nokkuð á óvart er sagt var frá því að við værum í rauninni ekki með mjög ódýra orku í samanburði við aðra aðila. Við værum í meðallagi þegar kemur að stóriðju en því hefur oft verið haldið fram að við séum með umhverfisvæna orku á algeru lágmarksverði.

Það sem ég vildi fá að vita er einfaldlega þetta: Hvernig, og þá er ég að vísa í stjórnarsáttmálann, hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir ívilnunum og hagstæðu orkuverði til eflingar atvinnulífi og lífsgæðum til framtíðar eins og þar segir? Það væri ágætt að fá nánari útlistun á því, ekki bara hvernig það er gert heldur hvenær. Ég vonast til að fá ekki síðra svar en ég fékk frá hæstv. ráðherra áðan.