137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

ívilnanir og hagstætt orkuverð.

154. mál
[18:55]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og held að við eigum að ræða oftar og lengur um atvinnumál okkar Íslendinga og það sem fram undan er í þeim vegna þess að fjölmargt er á teikniborðinu.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal spyr hvenær menn geti farið að sækja um störf við orkuöflunarframkvæmdir. Það strandar ekki á þessari ríkisstjórn að samþykktir orkukostir verði nýttir enda er búið að gera áætlanir um það og umhverfismeta ýmsa kosti. Vandinn er fjármögnun eins og ég kom inn á áðan. Ef hv. þingmaður er með lausn á því máli væri gott að við settumst niður saman vegna þess að við erum núna að vinna að því að finna leiðir til að fjármagna þessar framkvæmdir. Það er stóri vandinn vegna þess að við lentum í bankahruni fyrir ekki mörgum mánuðum síðan og það veldur okkur vandræðum.

Háttvirtur fyrirspyrjandi segir réttilega að við eigum að nýta okkar grænu orku og ég er sammála því. Við eigum að gera það skynsamlega. Það sem skiptir máli núna og getur skipt miklu máli við nýtingu orkuauðlindanna til fjölbreyttari atvinnuuppbyggingar er að fyrir lok þessa árs lýkur áratuga vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þar sem leitað er sátta milli verndunar og nýtingar. Þar með höfum við í höndunum ítarlegt mat á mismunandi kostum til orkuöflunar sem auðveldar alla ákvarðanatöku í framtíðinni og gefur okkur heildstæðari mynd af þeim auðlindum sem hægt er að nýta og þeim auðlindum sem við viljum vernda. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að aðkoma almennings í gegnum Árósasamkomulagið tefji endilega þetta ferli þegar við erum komin með heildstæða mynd eins og ég nefni hér.

Virðulegi forseti. Öll þau verkefni sem ég hef tæpt á bæði í fyrri ræðu minni og hér miða að því að tryggja að orkulindir okkar verði nýttar á sjálfbæran hátt til verðmætasköpunar og bættra lífskjara hér á landi. Einn af okkar styrkleikum — og þar er ímynd okkar ósnert — (Forseti hringir.) er að hér eigum við hreina orku sem við eigum að nýta á sjálfbæran og ábyrgan hátt.