137. löggjafarþing — 53. fundur,  17. ág. 2009.

laun forseta Íslands.

168. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Frú forseti. Sem fulltrúi formanns efnahags- og skattanefndar vil ég mæla fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um laun forseta Íslands, nr. 10/1990.

Efnahags- og skattanefnd leggur til, með leyfi forseta

„1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Handhafar forsetavalds skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar skulu samanlagt njóta sem svarar til fimmtungs launa forseta þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir.

Lög þessi öðlast gildi 1. september 2009.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 7. gr. laga um laun forseta Íslands skulu handhafar forsetavalds skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar samanlagt njóta jafnra launa og laun forseta eru þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir og skulu launin skiptast að jöfnu á milli þeirra. Byggist það á 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir að ákveða skuli með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra sem fara með forsetavald.

Með frumvarpinu er lagt til að þessar launagreiðslur handhafanna verði lækkaðar þannig að þeir njóti samanlagt fimmtungs launa forseta þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir. Er frumvarpið liður í stefnu stjórnvalda að ná fram hagræðingu og sparnaði í ríkisrekstri sem jafnan er ákveðinn með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum og hefur því verið til efnislegrar umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd.

Greiðslur þessar hafa numið um 10 millj. kr. sl. fimm ár á núverandi verðlagi og lækka því í 2 millj. kr. verði störf handhafanna framvegis áþekk því sem verið hefur. Lækkunin er ákveðin með hliðsjón af því að eðli málsins samkvæmt eru störf handhafa forsetavalds að mestu takmörkuð við lögbundin störf, svo sem staðfestingu laga og þess háttar, þegar forseti Íslands er erlendis, en ekki heimsóknir, móttökur, setningarávörp og annað af því tagi sem m.a. felst í störfum forsetans. Óheimilt yrði hins vegar talið vegna ákvæða 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar að fella þessar greiðslur niður með öllu og því lagt til að þær verði lækkaðar verulega.

Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að handhafar forsetavalds fái greiddan útlagðan kostnað vegna starfans eins og ákvæði er um í 2. mgr. 7. gr. laganna.“

Að þessu sögðu leggur efnahags- og skattanefnd þetta til og vonast til að málið fái farsæla meðferð á Alþingi á næstu dögum.