137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Skilningur minn, virðulegi forseti, á þessum fyrirvörum er eins og ég hef sagt að ég tel að þeir tryggi betur og skýri þau öryggisákvæði sem fjárlaganefnd vildi tryggja sem lúta sérstaklega að bæði efnahagslegum og lagalegum viðmiðunum. Ég tel að þeir rúmist innan þeirra viðmiða sem menn hafa verið að vinna með, þ.e. það sem samþykkt var fyrir jólin um að taka tillit til þeirra erfiðu og fordæmalausu aðstæðna sem gera Íslendingum kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfið. Þegar horft er til þeirra sjónarmiða í því viðmiði er ég alveg viss um að Hollendingar og Bretar munu skilja það mál. (Gripið fram í.)

Það er alveg ljóst að þetta verður viðfangsefnið þegar þingi lýkur að tala við Hollendingana og Bretana. Við töldum rétt að á meðan Alþingi væri að fjalla um málið væri það á forræði þingsins. Ég hef talað við ýmsa forsætisráðherra um þetta mál, forsætisráðherra allra Norðurlanda. Ég talaði síðast í dag við Anders Fogh Rasmussen sem hefur talað m.a. við Gordon Brown og allt þetta gefur mér tilefni til bjartsýni í þessu máli.