137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með öðrum þingmönnum þakkir fyrir ræðu hv. þingmanns. Mig langar að spyrja þingmann, vegna þess að nú hefur það komið í ljós í umræðunni að uppi er mismunandi skilningur á því milli okkar sjálfstæðismanna og forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar á því hvort hér sé um að ræða nýjan samning eða hvort samningurinn sem skrifað var undir í júníbyrjun af fjármálaráðherra standi innan þeirrar umgerðar — ef notuð er skapandi hugsun og ég veit ekki hvaða orðalag hefur verið notað. Mig langar að spyrja hv. þingmann um afstöðu hennar til þess. Telur þingmaðurinn að þeir fyrirvarar sem Borgarahreyfingin studdi, og við sjálfstæðismenn styðjum einnig en Borgarahreyfingin er flutningsaðili ásamt meiri hluta ríkisstjórnarinnar, rúmist inni í gamla samningnum?