137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:53]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg rétt ábending hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um Stokkhólms-heilkennið. Það er auðvitað margþætt. Við höfum alltaf haft ákveðna tilhneigingu til að dekra við sænskar kenningar sem hafa í rauninni lítið dugað fyrir veiðimannasamfélag eins og á Íslandi, duga betur fyrir þjónustu- og iðnaðarsamfélög eins og eru úti í hinni stóru Evrópu.

Kannski brugðust Norðmenn fyrst með því að færa yfir til Svía meðferð Norðurlandanna á tengingu við Ísland. Það kom verulega á óvart og olli miklum vonbrigðum. Það sýndi að Norðmenn, sem gjarnan hafa sagt „Kjære brødre og venner“, meintu það ekki. Það hefði verið hægt að fara miklu austar í þessum heimshluta, til Moskvu, og mátt vænta heillegri viðbragða þar. Það er nú bara þannig, það er nú bara sagan sem sýnir það. Það eru ekki heilindi í þessu.

Við vitum ósköp vel að Svíar eru í alls konar alþjóðlegu makki í samningum í gegnum alþjóðastofnanir, hlutdeild í ráðum og stofnunum um allan heim og lúta því stóru herrunum í Evrópu, gömlu heimsveldissinnunum og kúgurunum þar, Bretum, Hollendingum, Spánverjum, Belgum, Portúgölum o.s.frv. Og ekki má gleyma blessuðum Frökkunum.

Þetta er staðan sem við búum við og (Forseti hringir.) við verðum að hvetja okkar fólk til þess að rísa upp og berjast gegn þessari óáran.