138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:26]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Um áramótin er von á rammaáætlun um nýtingu og orkukosti og þá skýrist mjög hvaða orkumöguleikar eru fyrir hendi. Það er alveg ljóst að grundvöllur endurreisnar á íslensku atvinnulífi og efnahagsbata okkar byggir á því hvernig til tekst við raforkunýtingu á næstu mánuðum og missirum, alveg eins og endurreisn veikra byggða úti á landi hvílir á því hvernig til tekst að nýta orkulindir í nágrenninu til að byggja upp fjölþættan og öflugan iðnað sem tengist og byggist á raforku.

Við stöðugleikasáttmálann verður að sjálfsögðu staðið í hvívetna. Hæstv. iðnaðarráðherra vísaði til þess að í vor rétt fyrir kosningar var gengið frá fjárfestingarsamningi vegna álvers við Helguvík sem liggur þeim áformum og þeim framkvæmdum, sem að hluta til eru hafnar, algjörlega til grundvallar. Ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra á dögunum um suðvesturlínu þarf ekki að valda neinni verulegri töf á þeim framkvæmdum (Gripið fram í.) og má ekki hafa neina töf á þeim framkvæmdum í för með sér. Það er gífurlega mikilvægt að ná þessum verkefnum á fullan skrið, álveri í Helguvík, gagnaverum vítt og breitt um landið, sem nú er í bígerð að byggja og byrjað er að byggja sum þeirra, álþynnuverksmiðjur og fleira slíkt.

Núna þegar krappasti samdrátturinn gengur yfir landið skiptir gríðarlegu máli að okkur takist að koma af stað framkvæmdum eins og Búðarhálsvirkjun og ýmiss konar annarri orkunýtingu sem verður í fjölbreyttu formi atvinnuhátta, að sjálfsögðu. Þá er mjög mikilvægt það sem hæstv. iðnaðarráðherra undirritaði um daginn og tengist nýtingu á orku á Norðausturlandi. Það skiptir mjög miklu máli að það er allt galopið hverjir komi þar að borðinu til að byggja upp fjölbreyttan iðnað sem byggir á orkunni þar á svæðinu.