138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski eðlilegt að skilaboðin verði misvísandi þegar menn bregðast við óorðnum hlutum og álykti gegn þeim fyrir fram svona til öryggis áður en þeir vita hvað þar er á ferðinni, eins og á nú dálítið við í þessu tilviki. Menn stukku á það dæmi sem nefnt er þarna til marks um hversu stór og breiður tekjustofn raforkusalan er. Það kemur fram í þeim texta að annað dæmi og annar skattstofn gæti með annars konar álagningu, t.d. losunarskattar, gefið 7 milljarða. Þá væru menn komnir upp í 23 milljarða þó að í frumvarpinu sé talað um að þetta geti skilað allt að 16 milljörðum og er þá allt undir, þ.e. allur þessi stóri, breiði, mögulegi skattflokkur orku-, umhverfis- og auðlindagjalda. Þar er alveg ljóst að um yrði alltaf að ræða lágt einingarverð enda er um að ræða svo stórt andlag skattlagningar, eins og dæmið sem ég nefndi í blaðagrein í gær sýnir fram á.

Að sjálfsögðu er rétt að ræða útfærslu þessa við þá sem þetta hefur áhrif á og það verður gert og það er í boði. Vonandi geta menn sest yfir þetta með því hugarfari að allir séu tilbúnir til að leggja sitt af mörkum. Sennilega hefur enginn einn flokkur íslenskra fyrirtækja hagnast jafnmikið á þeim breytingum sem hér hafa orðið í hagstærðum en einmitt útflutningsfyrirtækin og sérstaklega stóriðjufyrirtækin, m.a. vegna þess að launakostnaður þeirra í erlendri mynt hefur stórlækkað og vegna þess að þau hafa notið góðs af miklum skattalækkunum á atvinnulíf hér á undanförnum árum sem eru langt umfram það sem upphaflegir samningar þeirra eldri gerðu ráð fyrir. Er þá ósanngjarnt að skoða að þessi geiri, sem sennilega er í betri færum til þess að taka tímabundið á með samfélaginu, leggi eitthvað af mörkum eins og allir aðrir? Ég held ekki.

Markmið er að fara rækilega yfir þetta, setjast yfir þetta með þessum aðilum og ræða það við þá sem og við stjórnarandstöðuna sem ég veit að verður hjálpleg í þessu efni eins og öðru.