138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:36]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hv. þingmenn. Hér erum við að fjalla um fyrsta fjárlagafrumvarpið frá hruni efnahagskerfisins og bankakerfisins, fjárlagafrumvarp sem er erfitt að sannfæra þingmenn um að eigi tilverurétt. Vandi fjármálaráðherra í þessu mál er gríðarlegur. Það er enginn leikur að standa frammi fyrir þeirri stöðu sem íslenskt efnahagslíf og ríkisgeirinn er í og ég öfunda ekki hæstv. fjármálaráðherra.

Hér er aftur á móti ýmislegt sem má betur fara, ýmislegt gott líka og ég mun reyna að tæpa á því. Ég mun kannski fjalla um þetta mál með öðrum hætti en ég hef heyrt fyrr í dag. Ég hef oft orð á því að lítið hafi breyst á Íslandi og á Alþingi þrátt fyrir hrunið og þrátt fyrir kosningarnar. Leikritið sem var í gangi rétt áðan er til marks um það. Þetta eru hefðbundnu skotgrafirnar þar sem ramakvein sjálfstæðismanna vegna skattahækkana er algerlega fyrirsjáanlegt og endalausir stóriðjudraumar sumra þingflokka eru algjörlega fyrirsjáanlegir. Allt sem hróflar við ofurhagnaði bandarískra stórfyrirtækja er talið hið versta mál.

Við stöndum frammi fyrir miklum vanda. Skuldir eru miklar og skuldir ríkissjóðs um 1.700 milljarðar kr. án Icesave-skuldbindinganna. Kannski er rétt að fram komi að með Icesave og öðrum opinberum skuldum, t.d. skuldum sveitarfélaga og ríkisábyrgðum sem eru útistandandi, eru heildarskuldir hins opinbera nærri 4.200 milljarðar kr. (Gripið fram í.) Það er fáheyrð skuldastaða sem ég veit ekki hvort hefur nokkurn tíma verið til í efnahagssögunni áður, hvorki hér né annars staðar. Skuldahlutföllin sem Íslendingar búa við eru orðin þannig að það er ekki hægt að standa undir þeim. Hver er þá lausnin? Jú, hún er sú að taka meiri lán. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 450 milljarða kr. lántöku til viðbótar og 95 milljarða kr. viðbótarlántöku með ríkisábyrgð til ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja. Úr þessu á svo að greiða einhvern tíma í framtíðinni af börnum okkar og barnabörnum.

Þetta fjárlagafrumvarp er samið að hluta til af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þar sem niðurskurðartillögur í ríkisfjármálum eru að forskrift hans. Þær eru allt of brattar til þess að íslenskt samfélag þoli þær og standi undir þeim. Veikir munu einfaldlega ekki lifa af og krakkarnir okkar munu ekki fá þá menntun sem þeir þurfa. Löggæslan mun molna niður og margt fleira. Stíga þarf miklu varlegar til jarðar en gert er í frumvarpinu og fara aftur yfir þá hluti sem snúa að heilbrigðismálum, menntamálum og löggæslu, svo fátt eitt sé nefnt.

Ég tel að Ísland sé komið yfir þolmörk í greiðslumöguleikum, við verðum að fara að viðurkenna það og huga að greiðslufalli á skuldum. Staðan er einfaldlega þannig. Þetta er ekkert einsdæmi í veraldarsögunni, þetta gerist með örfárra ára fresti hingað og þangað um heiminn og er ekki svo alvarlegt mál. Vissulega er ekki gott að geta ekki greitt skuldir en stundum er það einfaldlega ekki hægt og þá er ekkert annað að gera en að lýsa því yfir.

Frumvarpið sem slíkt gengur ekki upp óbreytt og verður áhugavert að fylgjast með þegar menn í fjárlaganefnd t.d. — þar sem ég á sæti — fara að leika sér með tölurnar sem eru hér. Menn munu halda áfram þeim gamla, góða leik að koma heim í kjördæmin sín með peninga í tösku fyrir kjósendur sína, fyrir húsinu hér eða vegarspottann þar, símalínuna hér eða hafnargarðinn þar. Hreppapólitíkin mun halda áfram að einhverju leyti. Þessu þurfum við að taka á og reyna að breyta.

Það jákvæða sem ég vil tala um er margt, t.d. sala á fokdýrum sendiherrabústöðum úti um allan heim. Svo er annað sem er nánast vonlaust, eins og að reikna með skatttekjum ríkissjóðs af tekjuskatti lögaðila. Hér er enn eitt dæmið um að fjármálaráðuneytið hefur ekki lagst í þá vinnu sem þarf til að endurskoða skattstofna. Að ætla sér að byggja raunhæfar tekjur á tekjuskatti fyrirtækja sem geta hagrætt bókhaldi sínu og greitt nánast þá skatta sem þau langar til hverju sinni er ekki góð leið til að byggja upp tekjur fyrir ríkissjóð. Það kerfi má endurskoða frá grunni og leggja í staðinn lágan veltuskatt á lögaðila og leyfa þeim svo að ráðstafa hagnaði sínum eftir því sem þeim hentar hverju sinni, til eðlilegra fjárfestinga eða í að greiða arð.

Skoða þarf aftur ýmsa skattstofna sem búið er að leggja af, t.d. erfðafjárskatt og stóreignaskatt. Ekki að ég sé hrifinn af þeirri skattlagningu en við búum einfaldlega við þær aðstæður að frekar vil ég sjá tekjur ríkisins auknar þannig en að veikum sé úthýst af sjúkrahúsum. Leggja þarf drög að því að tekinn verði upp svokallaður Tobin-skattur á fjármagn, þ.e. á vissa þætti fjármálaþjónustu. Fjármálaþjónusta er eini geiri efnahagslífsins sem er undanþeginn virðisaukaskatti t.d. Slíkur skattur dregur úr óþarfa braski með fjármagn og stuðlar að meiri stöðugleika á fjármagnsmarkaði.

Fleiri jákvæð atriði eru í þessu frumvarpi, t.d. það sem hefur verið gagnrýnt af sumum, orku-, umhverfis- og auðlindaskattar. Ein króna á kílóvattstund til stóriðju er kannski ekkert svo galin hugmynd þó að ég hafi ekki séð hana mjög nákvæmlega útfærða. Hér er um að ræða mál sem snertir alla Íslendinga og er grundvallaratriði, að einkaaðilum séu ekki afhentar auðlindir þjóðarinnar á silfurfati og jafnvel ókeypis. Gistináttagjald er skattheimta sem er mjög algeng í nágrannalöndunum. þar sem tekjurnar eru notaðar til þess að betrumbæta aðgengi að ferðamannastöðum.

Aðalatriðið hlýtur hins vegar að vera hagkvæm og arðbær útleiga á auðlindum. Þar er fyrst að nefna útleigu á aflaheimildum. Fiskveiðikvótann sem hefur í áratugi verið afhentur útgerðarmönnum ókeypis og þeir hafa misfarið með, enda er útgerð á Íslandi orðin skuldsettasta atvinnugreinin — ég held að skuldir útgerðar séu um 500 milljarðar kr. Hér þarf að gera stórátak. Taka þarf aflaheimildirnar og setja þær á uppboð, gera mönnum kleift að bjóða í þær og gera framvirka samninga um leigu á kvóta til nokkurra ára í senn, en það þarf að taka gjald fyrir. Það er eðlilegt, sanngjarnt og hagkvæmt og gerir nýtinguna hagkvæmari.

Hæstv. ráðherra missti af gullnu tækifæri í vor þegar veiðileyfi á hvalina voru afhent Kristjáni Loftssyni ókeypis. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvers vegna hann gaf ekki einhverjum öðrum þessi veiðileyfi á hvali. Ég hefði alveg þegið eins og 20 hvali ef mér hefðu verið boðnir þeir. Þarna var gullið tækifæri til þess að setja veiðileyfi á hvali á uppboð á alþjóðamarkaði og leyfa þeim sem vildu að bjóða í þau með því fororði að ef hvalirnir yrðu veiddir yrði gert að þeim á Íslandi. Náttúrverndarsamtök hefðu getað keypt sér hvali og sleppt því að veiða þá. Þannig hefði ásættanlegri niðurstaða getað náðst, m.a. fengist tekjur í ríkissjóð, og markað hefði verið það grundvallarspor að auðlindir séu ekki gefnar einkaaðilum. Það á að heyra sögunni til og nýta þarf betur þær auðlindir sem þjóðin hefur en gert hefur verið. Vonandi verða þessir skattstofnar teknir fyrir í efnahags- og skattanefnd þegar þar að kemur en þar á ég sæti og mun beita mér fyrir því að skynsemi verði viðhöfð.

Það eru mörg önnur atriði í fjárlagafrumvarpinu sem mig langar að tæpa lítillega á. Eitt af þeim eru framlög til þingflokka sem sæti eiga á Alþingi, þ.e. kaup á sérfræðiaðstoð. Framlögunum þarf að jafna betur á milli þingflokka, engin rök eru fyrir því að stærri flokkar þurfi á meiri framlögum að halda. Ef eitthvað er ætti því að vera öfugt farið af því að þar er hægt að deila vinnunni niður á fleiri. Gríðarlegar upphæðir fara í forsætisráðuneytið og við fyrstu sýn sýnist manni að auðveldlega megi lækka þær um 200–300 milljónir.

Hér er 2,5 milljarðar settir í stuðning við einkaháskóla, sem eru einkafyrirtæki, en um er að ræða geira sem býður upp á sjálftöku á ríkissjóð. Ef mér býður svo við að horfa get ég safnað liði og stofnað einkaskóla í næstu viku, lagt inn plögg til menntamálaráðuneytisins og sjálfkrafa átt kröfu á skattfé borgaranna. Það gengur ekki að vera með slíkt kerfi.

Farið er fram á 500 millj. kr. framlag til skógræktar. Skógrækt er hið besta mál en afrakstri hennar er brennt í pitsuofnum pitsusölustaða eða hann er brytjaður niður í flísar og notaður í göngustíga. Þetta eru óarðbær verkefni og sóun á fé. Hér eru tæpir 6 milljarðar til mjólkurframleiðslu, sem ég átta mig bara alls ekki á í hvað fara. Nærri 5 milljarðar fara til ríkiskirkjunnar. Þetta eru allt saman peningar sem má nota til þess að hlífa börnum og veikum við niðurskurði.

Framlög til stjórnmálaflokka eru þetta árið tæpar 400 millj. kr. Nýlokið er uppstokkun á öllu fjármálaumhverfi stjórnmálaflokka á Íslandi. Það er bara fyrsta skrefið. Við aðstæður sem þessar þarf og jafna þessum framlögum betur á milli flokka. Það er ekkert sem segir að stjórnmálaflokkur þurfi á annað hundrað milljónir á ári til þess að reka sjálfan sig. Við skulum ekki heldur gleyma því að hér eru þingmenn að úthluta sjálfum sér fé en því öflugri sem þeirra eigin stjórnmálaflokkar eru því meiri líkur eru á að þeir nái endurkjöri og að þingmennirnir haldi vinnu sinni. Rækilega þarf að fara ofan í saumana á þessu og byggja framlög til stjórnmálaflokka á þeim grunni að þau geti haft t.d. einn framkvæmdastjóra á launum og viðunandi húsnæði. Á annað hundrað milljónir á ári til einstakra flokka er algjörlega út úr kortinu og allt of mikið.

Hér eru framlög í rekstur Vegagerðarinnar. Arðsemi framkvæmda Vegagerðarinnar hefur aldrei verið tekin út af Ríkisendurskoðun. Ævintýralegar arðsemistölur Vegagerðarinnar af vegarspotta hér og þar um landið hafa vakið athygli. Hér þarf að gera bragarbót á því að, með fullri virðingu fyrir jarðgöngum og vegaúrbótum á landsbyggðinni, þá verður að vera raunhæf mynd af því í hvað peningarnir fara og hverju þeir skila.

Iðnaðarráðuneytið fær 500 milljónir til þess að setja í auglýsingar fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Ferðaþjónustufyrirtæki eiga að greiða sinn auglýsingakostnað sjálf. Fjármálaeftirlit og Samkeppniseftirlit þarf að efla en endurskipuleggja þarf þessar stofnanir áður en fé veitt í þær. Fjármálaeftirlitið er kannski sú stofnun sem brást verst í hruninu og hefur ekki verið endurskipulögð. Skipt hefur verið um forstjóra en innviðirnir hafa ekki verið skoðaðir.

Vaxtagjöld ríkisins í þessu fjárlagafrumvarpi eru um 100 milljarðar kr. Það er of mikið fyrir okkur til að standa undir, nærri 20% af öllum útgjöldum ríkissjóðs fara í vexti og nærri 25% af tekjum ríkissjóðs. Eins og ég sagði í upphafi erum við komin yfir skuldaþolsmörk og við verðum að taka á málum með það í huga. Hins vegar er ekki líklegt að sú tillaga mín nái fram að ganga og því mun ég náttúrlega, eins og mér ber skylda til, taka áfram þátt í því verkefni sem vinna við fjárlagafrumvarpið er en jafnframt reyna að hlífa sjálfum mér við því að taka þátt í hreppapólitíkinni og leikritinu sem leikið hefur verið.

Ég vildi tæpa á þremur atriðum enn. Það fyrsta og kannski mikilvægasta er að gert er ráð fyrir töluverðum niðurskurði til Alþingis sjálfs. Alþingi hefur sýnt og sannað síðan í vor að með öflugu starfi getur náðst fram ný, þverpólitísk nálgun á mál sem koma fyrir þingið og á þessari ögurstund er ekki rétt að skera framlög til Alþingis niður. Nú frekar en nokkru sinni fyrr er þörf á því að þingmenn hafi aðgang að bestu sérfræðiaðstoð sem til er og hafi alla þá aðstoð sem hægt er að fá.

Annað atriði sem ég mun beita mér gegn að hróflað verði mikið við og skorið niður í er heilbrigðisgeirinn. Ekki er ásættanlegt að bankakreppa sem stofnað var til af einstaklingum bitni á sjúkum, veikum og fötluðum og því mun ég með öllum ráðum beita mér fyrir því að fjárveitingar til þess geira verði auknar.

Þriðja atriðið sem ég mun leggja aðaláherslu á eru mennta- og menningarmálin. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við byggjum best upp framtíðina með því að standa vörð um skólakerfið og menningarmálin. Ef við hendum tungunni hendum við þjóðarsálinni og alveg er augljóst, eins og komið hefur fram oft áður, að vart er hægt að setja fé í arðbærari hluti en margvísleg menningarmál þar sem afleiddu störfin eru miklu fleiri en t.d. af öllum draumórunum um stóriðju.

Hér er því margt sem má gera betur og ég mun beita mér fyrir að verði gert betur. Ég óska eftir góðu samstarfi við félaga mína í fjárlaganefnd og að þar verði haft það kjörorð sem við höfum alltaf í huga í Hreyfingunni þegar kemur að því sem þarf að breyta hér á Íslandi. Það er að menn noti róttæka skynsemi og verði ekki hræddir við að breyta hlutunum af einhverri alvöru.