138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að benda hv. þingmanni á það þegar hann talar um tekjur og að koma hjólum atvinnulífsins í gang, þá liggur það fyrir að ef fyrsti áfangi Helguvíkur fer í uppnám þá gerist það að ríkið tapar þar 7 milljörðum í beinum tekjum. Plús það að þetta eru tæp 3 þús. störf sem skaffa þá 5 milljarða sem sparast í greiðslu á atvinnuleysisbótum. Það þýðir 12 milljarðar.

Það er enginn að tala um að það eigi að velta öllum sköttunum á einstaklinga. Ég er algjörlega sammála og við erum öll sammála um það að mjög mikilvægt er að jafna skattbyrðina. Það eru allir sammála um það og að reyna að dreifa henni eins sanngjarnt og hægt er.

Síðan langar mig kannski að velta því hér upp við hv. þingmann hvernig honum litist á það að skoða t.d. hugmyndir okkar sjálfstæðismanna um að breyta inngreiðslum á lífeyrissjóðakerfinu sem við höfum lagt fram hér í efnahagstillögum okkar. Þær eru ekki mikið ræddar, þær eru bara slegnar út af borðinu. Það eru einir 35 milljarðar ef það yrði gert. Þá gætum við hlíft einmitt fjölskyldunum sem allir hér inni eru sammála um að reyna að gera, en greinir hins vegar á um aðferðir hvernig á að fara að. Það er það sem við verðum að taka málefnalega og rökræna umræðu um.

Við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni. Við þurfum að byrja að framleiða. Skapa störf. Gefa fólkinu og fjölskyldunum von.