138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

staða sparisjóðanna.

[14:05]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þm. Eygló Harðardóttur. Því er til að svara að það hefur ekki orðið nein stefnubreyting hjá ríkinu hvað þetta framlag til sparisjóðanna varðar, þ.e. enn stendur til að nýta þær heimildir sem gefnar voru um 20% framlag, þannig að það hefur ekki breyst.

Þegar ég nefndi í þessu blaðaviðtali að það væri minna fé sem rynni til þessa liðar en upphaflega ráð var fyrir gert skýrist það ekki af því að forsvarsmenn sparisjóða hafi minni áhuga á því að fá féð en talið var. Því er einmitt öfugt farið. Þeir hafa ekki minni áhuga, heldur jafnvel meiri en menn gerðu ráð fyrir. Skýringin er fyrst og fremst sú að ekki verður af augljósum ástæðum um neitt stofnfjárframlag til SPRON að ræða og einnig að góðar vonir eru til að samningar náist við kröfuhafa í a.m.k. tveimur sparisjóðum. Það gæti leitt til þess að þörfin fyrir stofnfé verður aðeins minni en það munar ekki mjög miklu þannig að allt útlit er fyrir það að þetta gangi eftir. En ég vil minna hv. þingmann á að málið er jafnvel frekar á forræði fjármálaráðuneytisins en efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Eftir stendur að það virðist ekki stefna í annað en að hér rísi öflugt sparisjóðakerfi sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki, einkum í hinum dreifðu byggðum landsins, og einnig mjög öflugan sparisjóð á höfuðborgarsvæðinu. Að þær stofnanir hafi nokkra sérstöðu í fjármálakerfinu, þjóni einkum smærri fyrirtækjum og einstaklingum og séu með náin tengsl við sína heimabyggð er einmitt það sem við viljum sjá.