138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[19:07]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðurnar um þetta frumvarp. Til að svara hv. þm. Birgi Ármannssyni verð ég að viðurkenna að álits fjármálaráðherra hefur ekki verið leitað sérstaklega. Það gæti verið afsökun að allsherjarnefnd beindi því á sínum tíma til fjármálaráðherra að kanna hvort breytingar á skattalöggjöfinni væru nauðsynlegar. Þetta hefðum við í rauninni samt átt að kanna í dómsmálaráðuneytinu og býðst ég til að þetta verði kannað þannig að allsherjarnefnd geti fengið þau gögn til upplýsingar.

Hvað varðar það að fella út ákvæði frá fyrri frumvörpum þá ítreka ég það sem ég sagði áðan um að þarna er í rauninni harla óvenjulegt frumvarp á ferðinni þar sem mörgum og í raun ólíkum samningum er slegið saman. Ég taldi ákveðin rök fyrir því að taka út þessi umdeildu ákvæði og láta athuga þau betur því að, virðulegi forseti, það er ákaflega mikilvægt að þau tefji ekki að hægt sé að fullgilda þá samninga sem hér eru til umfjöllunar. Það er mjög mikilvægt að fullgilda þessa alþjóðasamninga, lögfesta þessi ákvæði um upptöku og síðast en ekki síst að lögfesta þessi ákvæði gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem því miður er farin að skjóta rótum á Íslandi.