138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðum um Suðvesturlínu og framkvæmdir við Helguvík hefur það margoft komið fram á liðnum missirum að ég styð heils hugar uppbygginguna sem fyrirhuguð er og er fyrir löngu farin af stað í Helguvík í formi álvers þar, og þá orkuöflun sem þeirri framkvæmd fylgir. Þar skiptir að sjálfsögðu langmestu máli orkuöflun þessarar áfangaskiptu álversuppbyggingar og fjármögnun þeirra framkvæmda sem að sjálfsögðu hefur verið í hægagangi út af efnahagsástandinu heima og erlendis en vonandi rætist úr því og ég er bjartsýnn á það. Ég hef stutt þetta verkefni af heilum hug frá því að við tókum þarna fyrstu skóflustunguna í maí árið 2008. Það urðu mér vonbrigði þegar hæstv. umhverfisráðherra ógilti á dögunum ákvörðun fyrrverandi umhverfisráðherra um úrskurð Skipulagsstofnunar um suðvesturlínu. Ráðherra hefur hins vegar lýst því yfir að hún telji að það muni ekki valda verulegum töfum þannig að við skulum ekki gera meira úr því en efni standa til. Við skulum ekki tala framkvæmdirnar í einhvern hægagang. Orkuöflun og fjármögnun framkvæmdanna skipta mestu máli. Þessi mánaðartöf á Suðvesturlínu þarf ekki að þýða nokkra einustu töf á uppbyggingunni í Helguvík þó að það tefji línulögnina um tvo til þrjá mánuði. Stöðugleikasáttmálinn stendur eins og stafur á bók og þetta er ekki brot á honum þótt þetta sé ekki í anda hans.

Fjárfestingarsamningurinn vegna álversins í Helguvík sem við samþykktum á Alþingi í vor skipti mjög miklu máli um framgang þessara framkvæmda suður í Helguvík. Það vitum við öll hér. Þess vegna lögðum við allt kapp á að sá samningur yrði samþykktur fyrir kosningar í vor þannig að kosningarnar hægðu ekki á eða frestuðu framkvæmdum sem eru löngu hafnar suður frá. En vonir standa til að þær fari á fullan skrið núna upp úr (Forseti hringir.) áramótum og við vinnum að því.