138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

atvinnumál.

[14:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. Mér finnst hv. þingmenn vera býsna miklir kjarkmenn þegar þeir tala um að íslenskur héraðsdómur muni leiða þjóðir Evrópu fyrir héraðsdóm til úrskurðar fyrir innstæðutryggingarkerfi Evrópu. (Gripið fram í.) Já, það er hætt við að það komi aldrei hingað til dóms vegna þess að það eru ekki mörg dæmi um það í alþjóðasamfélaginu að þjóð eins og Holland hafi farið fyrir héraðsdóm í öðru landi til að sækja rétt sinn. (Gripið fram í.) Það er skylda að halda því til haga og mér finnst að menn eigi að hlusta vel á núna, það er krafa á að íslenska ríkið borgi til jafns til allra þeirra sem áttu innstæður í íslenskum bönkum (Gripið fram í.) óháð því hvaða þjóðir það eru. Það þýðir að í stað þess að við borgum 20.880 þús. evrur þurfum við að borga allt það sem þegar er búið að borga til Breta og Hollendinga. (Gripið fram í.) Sú krafa hlýtur að koma upp ef menn ætla að fara í dómsmál (Gripið fram í.) vegna þess að það er það sem verið er að sækja á okkur. Við áttum að fá hlé á meðan við samþykktum lágmarksupphæðina. Ef við ætlum að taka á okkur 100 þúsund evrur hjá Hollendingunum og 50 þúsund bresk pund hjá Bretunum með tilvísun í jafnræðisregluna þar sem við mismunuðum eftir þjóðerni innan sama bankans erum við líka að taka verulega áhættu. (Gripið fram í.) Við skulum hafa þetta eftir því hvar bankinn var staðsettur en það var sami bankinn. (Gripið fram í.) Við skulum bara horfast (Gripið fram í.) í augu við að það er einn af möguleikunum sem eru í málinu. Það kann vel að vera að við gætum fengið einhverja hagstæða niðurstöðu. Það gerum við helst með samningum. Þess vegna er fyrirvarinn með því ákvæði að við áskiljum okkur rétt til að taka málið fyrir dómstóla á síðari stigum og hefur hvergi verið vikið frá þeirri kröfu. En við ætlum út úr þessum vanda. Og kannski að Framsóknarflokkurinn ætti einmitt að hugleiða það þegar hann er alltaf að tala um að hér hafi ekkert gerst, nú er hann farinn að boða að það gerist ekki neitt. Það held ég að sé einmitt hættan hjá okkur, að við komumst ekkert áfram, ekki með ábyrgðina á nýju bönkunum í tryggingarsjóði (Gripið fram í.) sem á ekki neina einustu krónu. Ég held að okkur sé skylt að horfa á allar hliðar málsins en ekki þessa „barbabrelluheima“ sem Framsóknarflokkurinn er með. (Gripið fram í: Vel mælt.)