138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

þýðing á spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

25. mál
[14:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, það eru hæg heimatökin, enda reikna ég með því að greiða þetta af ráðstöfunarfé mínu en ég þekki hreinlega ekki hvernig því verður varið hjá öðrum ráðherrum. Þetta er mikilvægt, en það er líka rétt sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði, tíminn er kannski ekki mikill sem hér hefur verið hafður undir. Það á að skila svörum við spurningum 16. nóvember og það liggur fyrir að fyrir þann tíma ætti þetta allt að vera komið þýtt á íslensku á heimasíðu míns ráðuneytis. Ég á fremur von á því en hinu, að önnur ráðuneyti muni kjósa að gera slíkt hið sama, þ.e. að þýða sinn hluta, hvernig sem þau fara að því og hvaðan sem þau taka fjármuni í það. Það var algjör samhljómur um það í ríkisstjórn að þetta væri mikilvægt, ekki síst þegar þetta er sett í þetta samhengi, ekki aðeins málstefnulegt samhengi heldur líka hið lýðræðislega samhengi. Ég á von á því að þetta eigi eftir að verða aðgengilegt áður en svörunum verður skilað.