138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

eiginfjárframlag ríkisins í Landsbankanum.

[10:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það fer ekki á milli mála að það styttist í að við fáum enn og aftur að sjá einhvers konar Icesave-samsetningu í þinginu eftir að við erum farin að sjá mikið af endurteknu efni í fjölmiðlum frá því í júní. Gömlu fullyrðingarnar um að aukin skuldsetning í erlendri mynt muni styrkja lánshæfismat okkar og styrkja gengi krónunnar er aftur komið á flot þó að margbúið sé að útskýra hvers lags rökleysa það sé. Og aftur er komin gamla fréttin um 90% endurheimturnar þó að þar vanti reyndar töluvert upp á rökstuðning og hafi verið bent á að þar hafi hugsanlega einhverjar bókhaldsbrellur komið við sögu. Þess vegna mundi ég vilja fá það á hreint hjá hæstv. forsætisráðherra: Var krafa innstæðutryggingarsjóðs á Landsbankann fest miðað við gengi krónunnar 22. apríl? Því að ef svo er tekur íslenska ríkið gífurlega gengisáhættu. Veikist gengi krónunnar fær innstæðutryggingarsjóðurinn allt sitt greitt en ríkið þarf þó auk þess að borga verulegar upphæðir til annarra kröfuhafa og taka á sig miklar umframskuldir og vaxtagreiðslur.

Því spyr ég og ítreka: Var krafa innstæðutryggingarsjóðsins á Landsbankann fest miðað við gengi krónunnar 22. apríl sl.?