138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:06]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir jákvæðar undirtektir við tillögum okkar. Ég ætla að svara fyrirspurninni neitandi. Ég held að það væri ekki gott ráð að ríkið tæki núna til sín allar frestaðar skatttekjur í lífeyrissjóðakerfinu. Ég held að það væri of stór biti fyrir lífeyrissjóðakerfið. Ég held að við þurfum reyndar ekki að stíga svo rosalega stórt skref.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til þess að segja að ég held að við eigum í dag ómetanlegan fjársjóð í lífeyrissjóðakerfinu. Við eigum að reyna að standa vörð um þau grundvallargildi sem lífeyrissjóðakerfið byggir á. Við eigum hins vegar frestaðar skatttekjur í kerfinu. Ég vakti athygli á því að ég væri að horfa núna sérstaklega til séreignarsparnaðarins sem getur aðstoðað okkur við að komast fyrr á fætur. Ef við finnum ekki leiðir til þess að auka tekjur ríkisins og loka fjárlagagatinu mun það ekki þýða annað en nýjar lántökur til þess að fjármagna fjárlagahallann. Það má ekki gerast vegna þess að nýjar lántökur til að fjármagna fjárlagahallann er ákvörðun um að leggja auknar byrðar á framtíðarkynslóðir þessa lands. Ég held að það sé óþarfi. Ég held að nú sé tækifæri til að gera tilteknar kerfisbreytingar, hætta við að fresta skattlagningu, eins og ég vísa til í séreignarsparnaðarkerfinu, sem munu gera okkur kleift að forða nýjum sköttum og þannig stytta það tímabil sem efnahagslægðin á Íslandi varir.

Stóra kerfisbreytingin sem hv. þingmaður vísar til held ég að væri óráðleg og óþörf. Við þurfum að viðhalda hvatanum fyrir lífeyrissjóðina til þess að fjárfesta skynsamlega, fyrir allan almenning og launþegana í landinu til þess að leggja til hliðar.