138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:22]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að það er svigrúm til þess að draga saman. Þó verður að gæta að því að gera ekki of mikið á of skömmum tíma vegna þess að það getur haft keðjuverkandi áhrif út í samfélagið og valdið meiri vandræðum en aðstæður kalla eftir að við sköpum með niðurskurðinum, vegna þess að auðvitað verður hann alltaf sársaukafullur.

Ýmis ráðuneyti hafa verið nefnd til sögunnar. Í ráðuneyti samgöngumála t.d. höfum við verið með mikinn útgjaldavöxt en við höfum líka fjárfest fyrir þá peninga. Við höfum fjárfest í innviðum samfélagsins, bæði í vegum, samgöngumannvirkjum og í fjarskiptaneti. Þetta er allt fjárfesting sem við byggjum á til langrar framtíðar. Jafnvel þótt við drögum núna mikið úr, t.d. á þessu ári og verulega á því næsta, erum við samt sem áður í sögulegu tilliti með framkvæmdastig sem jafnast á við það hæsta sem verið hefur undanfarna áratugi.