138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

samningsmarkmið Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

[13:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Um leið verð ég að segja að það hryggir mig nokkuð hversu mikill og almennur misskilningur virðist vera hjá mörgum hv. þingmönnum um eðli þessarar undanþágu sem við Íslendingar fengum í Kyoto-samkomulaginu. Eðli hennar er að vegna þess að hér eru aðstæður til að framleiða með hreinni orku, framleiða með hreinni og betri hætti en víðast hvar annars staðar í heiminum er litið svo á af samfélagi þjóðanna að rétt sé að veita auknar heimildir hér á þeim forsendum, á forsendum umhverfisverndar. Þegar hæstv. umhverfisráðherra veltir fyrir sér hvort menn séu hægri grænir, vinstri grænir eða miðjugrænir eða hvað það nú heitir er það akkúrat þetta, frú forseti, sem við erum að ræða, umhverfisvernd, hvernig skynsamlegt sé að standa að málum, ekki hvernig menn festa sig í misskilda hugmyndafræði eða dogmatisma, með leyfi forseta, heldur það hvernig menn ná árangri í baráttunni gegn of mikilli hitun jarðarinnar. Menn ná árangri með því einmitt að vera skynsamir, með því að nýta í heiminum þá orku sem er hrein, nýta hreinustu framleiðslutækni eins og er gert ráð fyrir í þessu ákvæði. Það er því alveg skelfilegt til þess að vita að Íslendingar margir hverjir skuli túlka þetta sem eitthvert sérstakt sóðaákvæði. Það er alveg furðulegur misskilningur. (BJJ: Ótrúlegt.) Þannig hefði aldrei farið, samfélag þjóðanna hefði aldrei samþykkt slíkt ákvæði.

Jafnsorglegt er að heyra þann misskilning sem hér hefur komið fram að ekki sé hægt að setja saman það að við göngum inn í EPS-kerfið margumtalaða og höldum áfram að eiga þessi réttindi. Þetta fer algjörlega saman. Það kallar auðvitað á samræður við ESB en þó að þær skiluðu ekki árangri getur þessi iðnaður samt sem áður tekið þátt í EPS-kerfinu. Þessar heimildir geta áfram verið í eigu okkar Íslendinga. Það er bara ekki hægt að selja þær, aðrir geta ekki keypt þær. Þær munu ekki lúta þeim lögmálum sem gilda innan EPS-kerfisins og það er staðreynd. Þess vegna verður að segjast eins og er að það eru vonbrigði (Forseti hringir.) að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa sótt þetta af meiri festu. Það eru gríðarleg vonbrigði. (VigH: Rétt.)