138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég benti á þá fjallar þetta ekki um að prenta frumvarpið upp á nýtt heldur sögðum við í okkar frumvarpi að við óskuðum eftir þverpólitískri samstöðu um að komast að niðurstöðu. Um það fjallar þetta og það er viðhorfið í okkar vinnubrögðum og margra annarra.

Hv. þingmaður kemur inn á áliðnaðinn enn eina ferðina. Ég hvet hann til að fara t.d. upp á Akranes. Þegar ég var að byrja að skipta mér af pólitík var staðan þannig að á Akranesi var alltaf mesta atvinnuleysið, þar voru alltaf lægstu tekjur á mann og mesta vandamálið í gamla Vesturlandskjördæminu. Þessu er einmitt öfugt farið núna.

Hv. þingmaður talaði í ræðu sinni um auknar aflaheimildir. Hugsun okkar við að auka aflaheimildir er að við ætlum ekki að taka neina sénsa með fiskstofnana og ég hvet hv. þingmann til að hlusta á mig á eftir. Hins vegar getum við skapað aflaverðmæti til viðbótar upp á 33 milljarða. Það er þreföldun inn í hagkerfið vegna þess að öll fjárfestingin er til og þar erum við ekki að hugsa um neinn sérhagsmunahóp heldur íslenska þjóð. Það er grundvallaratriði í þessum tillögum okkar að við segjum: Við skattleggjum okkur ekki út úr vandanum. Við verðum að breikka skattstofnana, búa til fleiri störf, skaffa fólkinu tekjur, fækka þeim sem eru á atvinnuleysisbótum og þar af leiðandi gefa fjölskyldunum í landinu von. Um það erum við væntanlega sammála, ég og hv. þingmaður.

Í þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir á að skattpína fjölskyldurnar. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji raunhæft að skattleggja einstaklingana eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi við þær aðstæður sem nú eru, hvort það sé raunhæf leið að hans mati. Í framhaldi af því vil ég einnig spyrja: Hvað eigum við þá að gera til að vinna okkur út úr vandanum? Ég er meira en fús til að hlusta á tillögur hans í því og ætla mér ekki einungis að rakka það niður hvort sem ég er búinn að borða eða ekki.