138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:59]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þetta er kannski ekki spurning um vonda og góða heldur að fólk viti við hverja er að eiga í þessu máli. Eins og hv. þingmaður sagði eru þetta að nafninu til erlend fyrirtæki, erlendir bankar og jafnvel Alþjóðabankinn en enginn veit aftur á móti hver er á bak við það.

Annað sem mig langaði að inna hv. þingmann eftir er að það er mikið talað um skattlagningu og hvernig best sé að styrkja skattstofna ríkissjóðs án þess að setja allt á hliðina. Ég hef lagt fram, óformlega enn þá að vísu, ákveðnar hugmyndir um algera uppstokkun og endurskipulagningu á þeim aðferðum sem notaðar eru við skattlagningu á fyrirtæki. Eins og menn væntanlega vita margir hverjir er þetta endalaus eltingaleikur, að reyna að elta hagnað í fyrirtækjum til að skattleggja. Fyrirtækin kaupa sér einfaldlega 20 skrifborð í staðinn fyrir tvö til þess að sleppa við skattlagningu sem leiðir til óhagkvæmra fjárfestinga. Nú er lag að mínu mati að stokka þetta kerfi upp frá grunni. Eitt af því sem mig langar til að beina til hv þingmanns er hvort hann hafi einhverjar hugmyndir sjálfur um algera uppstokkun á þessu fyrirbæri þar sem þessi mál yrðu færð í einfaldara horf og fyrirtækjunum gert hægara um vik og auðveldara að ráða sínum málum sjálf með því að þurfa ekki að vera alltaf í þessum endalausa feluleik og bókhaldsleik. Þessi leikur veldur miklum tilkostnaði, einnig hjá ríkinu þar sem verið er að eltast við peninga sem hefðu farið í skatta eða skyldur en fóru í staðinn í skrifborð. Þessi eltingaleikur er búinn að standa yfir allt of lengi og skilar í rauninni ekki því sem efni standa til. Þess vegna vildi ég heyra meira frá hv. þingmanni um hvað væri heppilegt að gera í þeim málum.