138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ætli ég haldi mig ekki við umræðuefnið. Það er reyndar ekki svo að það eigi að ná 40 milljörðum að raungildi í viðbótartekjuöflun með tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti. Þegar verðlagsbreytingar og fleira er haft í huga er það nokkru lægri upphæð. Engu að síður er þar ráðist í mjög mikið. Já, svar mitt er að það sé raunhæft að það sé hægt að ná þessum árangri sem við ætlum okkur, bæði í sparnaði og tekjuöflun, en það er mjög erfitt. Það er gengið út á ystu þolmörk í báðum tilvikum og það verður mjög erfitt.

Ég minni líka á að þetta er stærsti og erfiðasti einstaki hjallinn á þessari vegferð. Ef við náum þessum árangri í ríkisfjármálum á árinu 2010 erum við búin að taka út langmesta sársaukann og þá verður framhaldið mun auðveldara. Það hefur ótvíræða kosti (Gripið fram í.) að takast á við þessa ábyrgð strax. Það hefur ótvíræða kosti, hv. sjálfstæðismenn, að velta þessum vanda ekki á undan sér en takast á við þessa ábyrgð strax, draga úr hallarekstrinum (Gripið fram í.) og uppsöfnun vaxtakostnaðar. (Forseti hringir.) Annars er ég að hugsa um, frú forseti, að afhenda sjálfstæðismönnum salinn. (Gripið fram í.)