138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:30]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna að ég tel að orku- og auðlindaskattar og reyndar auðlindagjöld jafnframt séu mjög eðlilegur tekjustofn fyrir hið opinbera. Þótt ástandið í fjármálum hins opinbera væri með eðlilegu móti teldi ég ekki nema eðlilegt að tekið væri gjald fyrir notkun á sameiginlegum auðlindum landsmanna. Þessi tala í fjárlagafrumvarpinu, 16 milljarðar, er að mínu mati ekki óhófleg en auðvitað þarf að gæta að því hvernig henni er dreift á þá skattstofna sem þarna eru undir. Þegar hefur komið fram að það stendur ekki til að leggja einnar krónu gjald á kílóvattstund. Að mínu mati hefði það verið talsvert of langt gengið. Ég tel að það sé engu að síður hægt að ná talsverðum peningum sem um munar í ríkisrekstrinum með því að skattleggja þennan geira og auðlindir almennt. Ég tel hins vegar að vitaskuld þurfi að gæta alls hófs í skattlagningu á þennan geira eins og alla aðra þannig að ekki sé grafið undan samkeppnishæfni landsins. Við verðum auðvitað í því samhengi að hafa í huga að ef þessi auðlind sem orkan er og að einhverju marki fiskurinn á að vera raunveruleg auðlind hlýtur hún líka að skila raunverulegum arði sem hægt er að skattleggja án þess að drepa viðkomandi atvinnugrein. Vitaskuld eru þó takmörk fyrir því hve há þau skatthlutföll mega vera.