138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram efnahagstillögur í annað sinn frá því síðast var kosið til Alþingis. Í sumar gerðum við ítarlega grein fyrir hugmyndum okkar og nú aftur við upphaf þessa þings teljum við rétt að leggja fram okkar sýn, tillögur okkar um hvernig eigi að leysa þann efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir. Ég tel að það sé skylda stjórnarandstöðu við þessar aðstæður að gera slíkt. Ekki sé hægt að fara í gegnum umræður um þann vanda sem Ísland stendur frammi fyrir núna án þess að þeir sem vilja láta taka sig alvarlega leggi fram á greinargóðan hátt þær tillögur sem þeir telja að séu til bóta fyrir land og þjóð.

Það sem ég hef haft mestar áhyggjur af varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar, og ég tel að sú leið sem við leggjum fram sé mótvægi við, er sú staðreynd að vissulega, eins og komið hefur fram hjá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum, er nauðsynlegt að draga úr ríkisútgjöldunum til að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum, það liggur fyrir. Á sama tíma hyggst ríkisstjórnin hækka skatta. Nú liggur það fyrir að hagkerfið hefur dregist mjög mikið saman á þessu ári. Ég leyfi mér að efast um að sú aðgerð að draga saman ríkisútgjöld og hækka skatta sérstaklega á þann atvinnuveg sem líklegastur er til, ásamt reyndar sjávarútvegi, að draga efnahagslífið upp úr þeim vanda sem nú er, sé ekki bara umdeilanlegt eða óheppilegt, ég held að þetta muni ekki skila árangri. Ég held að með þeirri leið munum við keyra okkur dýpra ofan í vandann en við fáum ráðið við þegar upp verður staðið. Þess vegna höfum við nálgast þetta vandamál á annan hátt. Við höfum sagt: Það þarf að skera niður ríkisútgjöld, enda hafa ríkisútgjöld vaxið á síðustu tíu árum um ein 30% að raunvirði. Það er reyndar pínulítið undarlegt að hlusta á hv. þingmenn sem hér hafa komið upp í umræðunni tala eins og eina aukningin sem hafi orðið í velferðarmálum á Íslandi hafi hafist árið 2007 með innkomu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Það er auðvitað fjarri öllu lagi. Menn geta síðan velt fyrir sér hversu skynsamlegt það var að auka ríkisútgjöldin svona mikið en það er staðreynd. Þau hafa aukist svona mikið og þar af leiðandi er tækifæri til að draga úr þeim.

En við höfum sagt: Það eru aðrar leiðir til að mæta þeim vanda. Annars vegar að við flýtum fjárfestingum, reynum að fá erlenda fjárfestingu inn í landið, reynum að flýta fyrir að losa fjármagn sem fer úr bönkunum og inn í atvinnulífið. En fyrst og fremst höfum við verið að horfa á erlenda fjárfestingu. Hún mun strax skila tekjum í ríkissjóð.

Forustumenn Samtaka iðnaðarins hafa á undanförnum dögum verið að heimsækja þingflokka, bæði í þessari viku og síðustu. Á þeim fundum hefur komið fram að þegar menn horfa t.d. á Norðurál og framkvæmdirnar í Helguvík er verið að tala um framkvæmdir upp á u.þ.b. 100 milljarða á tveimur árum sem þýðir 50 milljarðar á ári og af því má reikna með að um 20 milljarðar falli á ári innan lands í laun og annan kostnað sem þýðir fyrir ríkissjóð 7 milljarða í tekjur. Þetta þýðir raunverulega 7 milljarða í skatttekjur af slíkri framkvæmd. Hér erum við að tala um að hækka skattana um 16 milljarða, bara þessi eina framkvæmd getur skilað slíkum upphæðum. Fyrir liggur að í Straumsvík voru þeir komnir nokkurn veginn af stað með að fjárfesta fyrir eina 13 milljarða þegar fréttist að ríkisstjórnin ætlaði sér að setja á þessa háu skatta á orku og þar með var allt stoppað. Í staðinn fyrir að nú væru að koma hingað til landsins einir 13 milljarðar sem við gætum síðan notað til framkvæmda er sett á stopp vegna þess að ríkisstjórnin er að nálgast vandann með röngum hætti.

Því er mikilvægt að við förum frekar þá leið sem við sjálfstæðismenn leggjum upp með, flýtum þessu og skoðum möguleikana á að breyta skattlagningu á lífeyrissjóði, þ.e. flýta skattgreiðslunum. Ég staðnæmist einmitt mjög við hugmynd um séreignarsparnaðinn. Hún er einföld, hún hreyfir ekki við því kerfi sem hæstv. fjármálaráðherra ræddi skilmerkilega í ræðu sinni en skilar mjög miklum peningum fyrir hið opinbera. Og það er alveg rétt að verið er að færa til peninga. Það er bara með þetta eins og stundum er með rekstur fyrirtækja, og þeir þekkja það sem að slíku hafa komið, að stundum verða menn að fá fé. Stundum er það nauðsynlegt til að komast í gegnum vandræðin að menn fái fé. Það dugar ekki fyrir menn að eiga von á miklu síðar meir ef þeir geta lent í því að keyra í svo mikinn vanda að þeir komist ekki mikið inn í framtíðina.

Nú er ég ekki, virðulegi forseti, að láta mér detta það í hug, eins og var í umræðum áðan á milli ágætra hagfræðiprófessora, hvort kominn væri endapunktur í íslenskt þjóðlíf eða ekki. En það sem ég á við er að ef við keyrum okkur of mikið niður þýðir það það að við höfum of litla peninga til að fjárfesta í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu o.s.frv. Við raunverulega drögum úr heildarlífsgæðum þjóðarinnar til langs tíma. Þess vegna eigum við að vera opin fyrir því að skoða þær lausnir sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram.

Ég fór yfir það í máli mínu hvaða áhrif það hefur fyrir fjárfestingarnar þegar verið er t.d. að setja af stað eða hóta orkusköttum eins og hefur verið gert hvað varðar t.d. Norðurál og Straumsvík og mörg önnur verkefni sem eru núna í pípunum og eru stopp út af þessu, því miður.

Síðan held ég að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að við skoðum alla þá möguleika sem við höfum til að komast út úr gjaldeyrishöftunum. Það sem skiptir mestu máli er að skapa traust á íslenskt efnahagslíf vegna þess að það er alveg rétt að það eru ekki bara hinar svokölluðu hræddu krónur sem geta farið úr landinu, það eru líka íslenskir peningar íslenskra ríkisborgara. En til að koma í veg fyrir það verðum við að skjóta þeim stoðum undir hagkerfið sem eru nauðsynlegar til að menn fái trú á íslenska hagkerfið. Menn segi: Það er ágætt að vera með peningana á Íslandi af því að þeir skila góðri ávöxtun.

Hugmyndir okkar um að ríkið geti gefið út skuldabréf í erlendri mynt, í evrum, til að létta á þeim krónubréfavanda sem er uppi, afleiðingum jöklabréfainnflæðisins, eru ekki allsherjarlausn, það er alveg rétt. Þær eru ekki settar fram sem einhver allsherjarlausn á þeim vanda en sem hluti af þeirri lausn sem við leggjum upp með, sem hluti af þeirri lausn að ýta undir atvinnu með fjárfestingum með því að koma í veg fyrir skattahækkanir, með því að leysa hluta vandans með útgáfu slíkra bréfa og fyrir liggur að við ætlum okkur að fara að lækka vexti, þá er þetta allt samverkandi og mun gera það að verkum að við verðum miklu fljótari en ella að fella niður höftin. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að við vinnum áfram með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég hef tekið eftir því nokkuð í umræðunni að menn hafa misskilið það og talið að við sjálfstæðismenn vildum hætta slíku samstarfi. Það er auðvitað ekki svo. En við teljum að endurskoða þurfi þessa áætlun. Hún hefur dregist von úr viti og nauðsynlegt er að við aðlögum hana að þeim aðstæðum sem nú hafa skapast. Þess vegna setjum við fram þær hugmyndir sem grundvöll fyrir þá umræðu og fyrir slíkar viðræður við sjóðinn.

Frú forseti. Mig langar að víkja máli mínu aðeins áfram að skattamálunum af því að í umræðunni hefur nokkuð borið á þeirri skoðun sem hefur komið fram hjá nokkrum hv. þingmönnum að því miður hafi það verið svo að skattar hafi lækkað í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og því sé ekki hægt annað en að hækka skatta núna. Þetta hefur nokkuð komið fram í máli hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Við sem tókum þátt í kosningabaráttu árið 2007 munum það vel að ein helstu rök Samfylkingarinnar voru að þáverandi ríkisstjórn væri algerlega ómöguleg, að hún hafi með aðgerðum sínum hækkað svo skatta í landinu að vart væri við það búandi. Muna menn nú margir ábyggilega ýmsa lærða fyrirlestra sem komu héðan og þaðan úr þjóðfélaginu um þær vondu skattahækkanir Sjálfstæðisflokksins.

Skattar voru lækkaðir á Íslandi, það er alveg rétt. En að skattar hafi verið lækkaðir er ekki sjálfkrafa einhvers konar röksemd fyrir því að núna eigi að hækka skatta. Það er ekki sjálfkrafa röksemd fyrir því. Menn verða að horfa á þá stöðu sem uppi er. Og hvaða staða er uppi? Hún er einmitt sú að við erum í samdrætti, við þurfum að draga niður útgjöld ríkisins og ætla þá ofan á það að fara að hækka skatta og gera atvinnulífinu erfiðara með að ráða það fólk sem kannski missir vinnuna hjá hinu opinbera, draga úr eftirspurn í hagkerfinu, getur ekki verið skynsamleg hagstjórn. Þess vegna höfum við sett fram hugmyndir okkar sem valkost við þá leið.

Ég er algerlega sannfærður um að sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að feta sig inn á mun ekki leiða til neins góðs fyrir íslensku þjóðina. Það er miður og ég tel að nauðsynlegt sé að stjórnarandstaðan setji fram hugmyndir sem geti komið að gagni til að mæta slíkri leið.

Að lokum vil ég segja þetta: Ég tel að ef rétt er á haldið eigi Ísland alveg frábæra möguleika og það kom skýrt fram t.d. hjá þeim ágæta hagfræðiprófessor, Joseph Stiglitz, þar sem hann fjallaði um málefni Íslands eftir að hafa verið hér, að auðvitað eigum við góðan séns. En það þarf að halda rétt á málum og það eigum við að gera.