138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að í þessari umræðu virðast flestir vera að leita lausna á þeim mikla efnahagsvanda sem við glímum við en það vill oft brenna við að í þessum sal sé meira um hnútuköst en uppbyggilegar umræður, því miður.

Ég er fegin því að það hefur komið skýrt fram, t.d. hjá síðasta ræðumanni, að Sjálfstæðisflokkurinn er eindregið þeirrar skoðunar að halda eigi áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn því ég er sannarlega ein af þeim sem hélt að það væri mjög á gráu svæði hvort þeir vildu gera það. Varðandi framhald þess samstarfs er náttúrlega alveg ljóst, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að það er tengt lausn á Icesave-deilunni. Ég verð að segja að ég deili því með hæstv. fjármálaráðherra sem ég heyrði hann segja í útvarpinu að ég sé eftir hverjum degi sem dregst að leiða þá deilu til lykta.

Í tillögum sjálfstæðismanna, sem ég fagna því í þeim er margt fróðlegt og athyglisvert, kemur fram að það er samhljómur með þeim og tillögum í fjárlagafrumvarpinu, sem lagt var fram í síðustu viku, um að draga þurfi verulega úr ríkisútgjöldum. Mér hefur reyndar heyrst á sumum hv. fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að það sé kannski ekki mjög mikill vandi því að ríkisútgjöld hafi aukist svo mikið upp á síðkastið eða á undanförnum árum. Ég held samt sem áður að það verði svolitlum erfiðleikum háð að ná ríkisútgjöldunum niður en ég tel að það sé engu að síður nauðsynlegt.

Ég deili þeirri skoðun sem hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum í þessari umræðu og í umræðum undanfarna daga að við eigum að nota tækifærið til að gera gagngeran uppskurð á ríkisbúskapnum og uppstokkun í ríkiskerfinu. Ekki er vanþörf á því. Það er vel mögulegt og eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði fyrr í umræðunni benti fundur í heilbrigðisnefnd í morgun til þess að í þeim málaflokki er hugsað eftir þeim leiðum. Svo er reyndar einnig í ýmsum tillögum sem komið hafa fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Ef til vill tekst ekki að koma þeim hugmyndum öllum í gagnið 1. janúar en þá er um að gera að binda sig ekki svo við dagsetningar og fjárlög sem taka til eins árs að gagngerar breytingar geti ekki orðið í hvaða mánuði ársins sem er.

Í dag hefur verið gagnrýnt að fjárlagafrumvarpið sé ekki tilbúið. Ég hlýt að viðurkenna að ég skil ekki alveg þá umræðu því síst held ég að við vildum fá fjárlagafrumvarp sem væri hoggið í stein enda er væntanlega hugsunin með því að skylda fjármálaráðherra til að leggja fjárlagafrumvarp fram strax í upphafi þings sú að gefa þinginu tíma til að fjalla um það og væntanlega breyta því á ýmsa kanta og máta. Ég vil jafnvel leyfa mér að halda því fram að það geti verið kostur að ekki sé búið að njörva alla hluti niður. Alla vega er það ekki reynsla mín á þeim tíma sem ég hef setið á þingi að mönnum sé mjög auðvelt að skipta um skoðun eða láta tala um fyrir sér þótt kannski séu einhverjar undantekningar frá þeirri reglu.

Það er rétt að í fjárlagafrumvarpinu er ekki búið að útfæra hvernig á að ná inn þeim skatttekjum sem þörf er á í ár. Kem ég þá að því sem mér finnst mest spennandi í tillögum sjálfstæðismanna sem hér eru til umræðu en það er tillagan um að skattleggja inngreiðslur lífeyrissjóðanna. Eins og kemur fram í tillögunni er lögð til kerfisbreyting. Sumir geta kallað það bókhaldsfiff en þetta er kerfisbreyting. Ljóst er að þessari tillögu er ekki tekið með miklum fagnaðarlátum á skrifstofum hagsmunasamtaka atvinnulífsins og margra launþegasamtaka. Lífeyrissjóðirnir eru hins vegar ekki eign þeirra sem starfa á þeim skrifstofum heldur launþeganna í landinu og ef þessi leið er fær mun hún létta mjög skattbyrði almennra launþega sem annars verður nauðsynlegt að skattleggja mjög þungt til að ná inn þeim tekjum sem nauðsynlegar eru til að loka fjárlagagatinu. Ég fagna því mjög yfirlýsingum formanns hv. efnahags- og skattanefndar um að hann hyggist beita sér fyrir því að nefndin skoði þessa tillögu af fullri alvöru.

Ýmislegt annað má taka undir í tillögum sjálfstæðismanna sem hér liggja fyrir. Ég vil t.d. taka undir að það þurfi að stöðva það sem kallað er ólympískar veiðar á makríl og ég geri ráð fyrir að það þýði að keppast við að veiða sem mest. Eftir því sem fram kemur í greinargerðinni með tillögunni er áætlað að með því megi tvöfalda aflaverðmæti hans. Ég vil líka velta því fyrir mér hvort í þeim umbótum eigi ekki að bjóða upp þann afla sem leyft verður að veiða.

Í tillögunni eru önnur atriði sem ég tek ekki undir. Ég er sammála því að nauðsynlegt er að aflétta gjaldeyrishöftum en ég hef efasemdir um aðferðina sem lögð er til. Í mínum huga er það heldur ekki sáluhjálparatriði að allir búi í eigin húsnæði en auðvitað er nauðsynlegt að koma upp því kerfi að þeir sem kjósa að eiga ekki húsnæðið sem þeir búa í hafi samt sem áður húsnæðisöryggi.

Virðulegi forseti. Ég hef tæpt á nokkrum atriðum sem koma fram í þessari þingsályktunartillögu og tek undir með öðrum sem hafa fagnað því að hún sé lögð fram og geri ráð fyrir að við eigum eftir að ræða mörg þau atriði sem hér koma fram mikið á næstu vikum.