138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Ég vil byrja á því að óska síðasta ræðumanni til hamingju með jómfrúrræðu sína. Hér var rætt um kerfisbreytingu á lífeyrissjóðsgreiðslum, að skattleggja inngreiðslur í stað útgreiðslna ef svo mætti að orði komast, en ég tel að málflutningur hv. þingmanns hafi verið á misskilningi byggður. Þessi tillaga er ekki aðför að launafólki. Þarna er einfaldlega verið að horfa til þess að frestaðar skatttekjur ríkissjóðs liggja inni í lífeyrissjóðunum. Það er ekki aðför að launafólki í sjálfu sér að fara í kerfisbreytingar á lífeyriskerfinu og taka út frestaðar skatttekjur ríkisins eins og þær liggja inni hjá lífeyrissjóðunum.

Ég fagna því hins vegar að þessar tillögur okkar sjálfstæðismanna hafa fengið þær umræður í dag sem raun ber vitni og margir þingmenn hafa tekið með jákvæðum hætti en misjöfnum þó í þær tillögur. Ríkisstjórnin í þessu landi hefur oftar en ekki kallað á samráð og samvinnu en jafnharðan slegið út af borðinu allar þær tillögur sem fram hafa komið frá stjórnarandstöðunni frá því hún tók við sem minnihlutastjórn 1. febrúar 2009. Það er því fagnaðarefni að við þingmenn skulum sjá breytt vinnubrögð í þessum sal, að þessi mál séu rædd hér og nú. Það er alveg ljóst að við erum hvorki sammála um allar þær aðgerðir og umræðu sem hér á sér stað né þær tillögur sem við sjálfstæðismenn leggjum fram en við tökumst þó á um þær og það er vel.

Megintillögur okkar sjálfstæðismanna, fyrir utan þessa kerfisbreytingu á lífeyrissjóðum eða inngreiðslum og útgreiðslum í lífeyrissjóðina, eru að hér eigi að efla verðmætasköpun og blása lífi í atvinnulífið. Þar eiga að koma til auknar tekjur vegna þess að við teflum atvinnu fram gegn atvinnuleysi og tekjum gegn inngreiðslum í Atvinnuleysistryggingarsjóð. Það er meginhugmyndin. Hún kemur fram í þessum tillögum og einnig m.a. í þeim tillögum sem hv. 1. þm. Norðvesturkjördæmis, Ásbjörn Óttarsson, nefndi hér áðan um aukaaflaheimildir sem gætu skilað þjóðarbúinu hátt í 100 millj. á næsta ári. Allt er þetta vert skoðunar og engar af þessum tillögum á að slá út af borðinu. Menn eiga að taka þær til umræðu á þeim viðeigandi vettvangi og innan þeirra nefnda þar sem þær eiga við og ræða þær í þaula. Síðan má sníða af þeim galla eins og öllum öðrum tillögum og laga þær að þeim úrræðum sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að klára með fjárlögum sem við ljúkum hér í desember.

Í þessum tillögum Sjálfstæðisflokksins stendur líka að það megi og eigi að skoða þá aðgerðaáætlun sem vinnum samkvæmt í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Menn hafa rætt hér á undanförnum dögum að líklega sé þörf okkar fyrir lán ekki jafnmikil og lagt var upp með í þeirri aðgerðaáætlun og það er vel. Engin áætlun á að vera þannig niðurnjörvuð að hún geti ekki kallað á endurskoðun ef aðstæður breytast. Aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslensku ríkisstjórnarinnar er ekki undanskilin hvað það varðar en það er ekki verið að henda Alþjóðagjaldeyrissjóðnum út af borðinu ef menn halda það. Það væri að mínu mati í hæsta máta óábyrgt í því ástandi sem við erum nú.

Síðast en ekki síst, frú forseti, komum við sjálfstæðismenn með tillögur um skuldavanda heimilanna. Skuldavandi heimilanna er nátengdur þeim tillögum okkar að efla frekar atvinnu og auka tekjur en að draga úr atvinnu og borga enn frekar inn í Atvinnuleysistryggingasjóð. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðarkerfisins og þess að heimilin geti staðið við skuldbindingar sínar. Öllum er ljóst að það er forsendubrestur í íslenska hagkerfinu. Þessum forsendubresti verður að mæta með einhverjum hætti, frú forseti. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvernig þeir vilja ganga í skuldavanda heimilanna. Margar tillögur eru uppi á borðinu og þær allar verður ríkisstjórnin að skoða.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt fram sínar tillögur sem verða væntanlega ræddar í þinginu í næstu viku en mörgum þykir sem þær gangi eigi nógu langt og þar þurfi að gera betur.

Við leggjum hér fram tillögur sem við viljum að verði skoðaðar og óskum þess að hv. félags- og tryggingamálanefnd taki þær til skoðunar með opnum hug en hendi ekki út af borðinu því sem lagt er til. Ég ítreka, frú forseti, þau orð sem margir stjórnmálamenn hafa notað og nýtt að það sé þörf fyrir samráð og samvinnu. Ef einhvern tímann er þörf fyrir slíkt þá er það nú. Margir stjórnmálamenn hafa líka sagt að vinnubrögð fyrri ára hafi verið óásættanleg og vilja breyta þeim. Þá eiga þeir sömu aðilar, sem nú sitja í ríkisstjórn og hafa talað hvað hæst um að vinnubrögð fyrri ríkisstjórna hafi verið ómöguleg, að beita sér fyrir nýjum og breyttum vinnubrögðum, taka þátt og skoða þær tillögur sem lagðar eru fram.

Mönnum hefur líka verið tíðrætt um að sá vandi sem við stöndum frammi fyrir sé í boði Sjálfstæðisflokksins. Þá vil ég bara benda hæstv. ríkisstjórn á að hún hlýtur þá að sitja hér sem ríkisstjórn í boði Sjálfstæðisflokksins. Ég veit ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, hugnast það sérstaklega vel að vera sagður sitja í embætti fjármálaráðherra í boði Sjálfstæðisflokksins en ef vandinn sem við er að glíma er allur í boði Sjálfstæðisflokksins þá sitja þeir þar í boði hans, taka við því boði og vinna þá samkvæmt því.

Ég held að skuldavandi heimilanna sé miklu brýnni en við mörg hver gerum okkur grein fyrir. Unga fólkið okkar stendur hvað verst hvað þetta varðar. Því er afar brýnt að þessar tillögur, og þá tillögur sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt fram, verði teknar inn fljótlega og skoðaðar af fullri alvöru, sem og þær tillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram. Menn henda ekki út af borðinu niðurfellingu skulda eða leiðréttingu á höfuðstóli miðað við þann forsendubrest sem er í hagkerfinu. Það er einfaldlega ekki hægt, frú forseti.

Ríkisstjórnin hlýtur að taka við skoðunum og öðru sem þessar tillögur sýna því þær draga úr álögum á fólkið í landinu og það hlýtur að vera keppikefli ríkisstjórnar sem kennir sig við velferð. Þær eru líka lagðar fram til eflingar atvinnulífs sem dregur úr atvinnuleysi, eykur skatttekjur og minnkar inngreiðslur í Atvinnuleysistryggingasjóð. Sú ríkisstjórn sem kennir sig við velferð, frú forseti, hlýtur að taka tillögum sem þessum opnum örmum og hnýta þær inn í sínar tillögur um lausn þess vanda sem við blasir.