138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég hef ekki haldbærar tölur en árið 2002 var sveitarfélagið Mosfellsbær undir eftirliti eftirlitsnefndar sveitarfélaga. Það var næstum því komið í gjörgæslu vegna bágrar stöðu. Nákvæmlega eins og núna var ekki um annað að ræða, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr, en að fara í heildarendurskoðun á kerfinu og athuga hvar væri hægt að skera niður, hvar væri hægt að hagræða, hvernig væri hægt að samræma störf o.s.frv.

Að sjálfsögðu, frú forseti, eru þetta alltaf afar sársaukafullar aðgerðir, hvort sem er hjá sveitarfélögum eða ríki. Stjórnmálamenn verða þó að átta sig á því að þótt þeir séu í þjónustu þeirra sem kjósa þá, hvort heldur er í sveitarstjórnum eða á Alþingi, verða þeir að hafa kjark til þess að taka sársaukafullar ákvarðanir. Það er hluti af hlutverki þeirra, til þess eru menn í kjöri og til þess eru menn annaðhvort endurkjörnir eða þeim er hent út. Það er ekki flóknara. Menn verða að hafa kjark til þess að ráðast í sársaukafullar aðgerðir.

Þess vegna þykir mér í sjálfu sér miður að núverandi ríkisstjórn velur svona auðvelda leið að mínu mati t.d. með því að skera niður allar samgönguframkvæmdir í staðinn fyrir að efla þær og styrkja þannig atvinnulífið. Það er auðvelt að skera niður með einu pennastriki en erfiðara að fara í margar aðgerðir innan ráðuneytanna og þurfa að lækka laun fólks, sameina störf eða hugsanlega færa fólk til í störfum. Það er sársaukafullt og þar skortir kjark.