138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[18:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni með að það er mikilvægt að það komi upp á yfirborðið hvað þessi prósenta er í raun og veru mikil sem verið er að færa á milli því maður heyrir alls konar tölur. Það deila ábyggilega allir í þessum þingsal þeirri skoðun þótt verkið sé ekki eins hjá öllum að það verður að fara núna í skuldavanda heimilanna því fólkið er að gefast upp. Ef þetta gengur yfir, allar þessar skattahækkanir og aukið atvinnuleysi, munu fjölskyldurnar flosna upp og gefast upp. Það er ekki flóknara í mínum huga og þetta er ófær leið.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki jafnmiklar áhyggjur og við sjálfstæðismenn af embætti sýslumannanna. Það er byrjað að grafa undan þeim með því að taka frá þeim hugsanlega tryggingarþáttinn og færa hann yfir til félagsmálaráðuneytisins til að geta réttlætt að það sé auðvelt að skera niður af því þetta sé ekki nokkur skapaður hlutur sem eftir er. Eins langar mig að lokum að velta því upp við hann hvort hann sé ekki örugglega sammála okkur um að það sýnir sig oft þegar menn eru í þessum aðgerðum að einfaldast er að skera niður það sem er fjærst. Það er gríðarlega mikilvægt að við verjum landsbyggðina í þessu vegna þess að það hefur tekið ár og áratugi að fá hvert einasta starf þangað.

Þá veltir maður líka fyrir sér þessum hugmyndum sem menn eru með t.d. varðandi skertar ferðir Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Það er alveg með ólíkindum þar sem suðurhluti Vestfjarða býr við þannig samgöngur að án ferjunnar eru fyrirtækin ekki samkeppnishæf á markaði. Þetta fjallar um búsetuskilyrði og jöfnun búsetuskilyrða á landsbyggðinni að alltaf skuli farið í þessa vegferð. Ég hef miklar áhyggjur af því að það þurfi að verja og fylgjast mjög vel með því sem er að gerast í sambandi við niðurskurð í þessu fjárlagafrumvarpi.