138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

lausn Icesave-deilunnar.

[15:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst hv. þm. Bjarni Benediktsson horfa fram hjá einu smávægilegu atriði í þessu, sem hann var þó mjög meðvitaður um í desembermánuði sl., og það var mikilvægi þess að reyna að leysa þetta mál. Það skiptir að sjálfsögðu máli hér, hv. þingmaður. Það er ekki þannig, frú forseti, að Ísland hafi verið að semja við sjálft sig í þessum efnum. Þá hefði verið mjög einfalt mál að klára þetta. Þetta var deila milli aðila sem eðli málsins samkvæmt kallar á að ásættanleg lausn finnist og niðurstaða fyrir báða aðila eigi samkomulag að nást. Alþingi hefur ekkert látið frá sér í þessum efnum. Alþingi hefur áfram löggjafarvaldið. Alþingi hefur möguleika til aðgerða ef aðstæður koma upp og ekkert framsal hefur farið fram í þeim efnum, það hefur ekkert farið frá Alþingi í þessu máli sem hefur einhvern tíma verið þar. En það hefur ekki verið þannig, hv. þingmaður, að Alþingi hafi eitt haft stöðu til að útkljá þetta mál einhliða án þess að gagnaðilarnir kæmu að því. Hvers konar barnaskapur er það að tala þannig?