138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[16:59]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi yfirlit yfir lóðamálin á höfuðborgarsvæðinu. Við verðum að læra af þessari lexíu og það þarf að taka þau mál miklu harðari tökum. Það verður líka að kalla eftir því að sveitarfélögin sætti sig við að það verði einhvers konar miðstýrt skipulagsvald hvað þetta varðar. Þau hafa ekki viljað hlusta á það en ljóst er að tjónið af þessu fyrir samfélagið er allt of mikið til þess að við getum látið svoleiðis ástand yfir okkur ganga aftur. Þess vegna verður að taka miklu betur utan um þetta mál og við eigum að læra af þessari bitru reynslu.

Varðandi skattana er ég alveg sammála hv. þingmanni um að ég tel það skipta miklu máli að við skattleggjum ekki of mikið við þessar aðstæður en við verðum samt auðvitað að skattleggja. Mér finnst ágætt að horfa á þær hugmyndir sem settar hafa verið fram af hálfu Sjálfstæðisflokksins um skattlagningu á eingreiðslur lífeyrissjóðanna en þær eru lán hjá framtíðinni að sumu leyti. Við verðum líka að passa að borga fyrir þetta ástand sjálf . Við verðum með einhverjum hætti að ætla okkur núna að greiða (Forseti hringir.) það sem þarf til að loka þessu gati, við getum ekki bara vísað því á framtíðina. Ég er til í opin og fordómalaus skoðanaskipti um það.