138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil óska félagsmálaráðherra til hamingju með þetta frumvarp, þetta er mjög gott fyrsta skref, og jafnframt að samningar sem mér voru kynntir hérna fyrir fundinn um sértæka skuldaaðlögun taka vel á málum viss hóps fólks. Ég held samt að það sé ágætt að fara yfir hvaða meginprinsipp við þurfum að hafa við endurskipulagningu skulda heimilanna.

Við sjálfstæðismenn fórum yfir það í efnahagstillögum okkar og ég ætla að fara yfir þau prinsipp sem ætti að hafa í huga. Þau eru að viðhalda þeirri ríku hefð að fjölskyldur búi í eigin húsnæði. Íslendingar hafa langa hefð fyrir því að búa í eigin húsnæði og oft hafa nágrannalönd okkar litið öfundaraugum til okkar Íslendinga. Að stöðugleiki myndist í eignamyndun hjá fjölskyldunum og annað slíkt og að aðgerðir tryggi hag lántakenda, ekki síður en lánveitenda. Í þriðja lagi að aðgerðir séu almennar. Í fjórða lagi að þær viðhaldi greiðsluvilja, m.a. með hvötum til uppgreiðslu skulda. Að tryggja að aðgerðir séu ekki vinnuletjandi og leiði ekki til stórkostlegra skattahækkana. Aðgerðirnar þurfa að vera auðskiljanlegar og gagnsæjar og það þarf að tryggja að aðgerðir leiði ekki til landflótta, þ.e. þær þurfa að vera það afdrifaríkar að þær fylli fjölskyldur von um betri framtíð. Að lokum að þær leiði ekki til frekara hruns á fasteignamarkaði.

Ef við förum fyrst yfir greiðsluaðlögunina er ljóst að hún uppfyllir nokkur af þessum skilyrðum. Hún er almenn og tekur á greiðsluvanda heimilanna. Hún kemur til móts við það fall sem hefur orðið á ráðstöfunartekjum hjá heimilunum og að því leyti er hún góð. Aðgerðin virkar í meginatriðum þannig að greiðslubyrðin er lækkuð til þess tíma og gerð sambærileg við það sem hún var fyrir hrunið. Það sem út af stendur er sett inn á biðreikning og síðan þróast greiðslubyrðin miðað við vísitölu sem samanstendur af margfeldi atvinnustigsins og launavísitölunnar. Ef atvinnuleysi eykst hérna, þ.e. ef vinnumarkaðsþátttaka minnkar, lækkar vísitalan. Ef launavísitalan lækkar þá lækkar sömuleiðis sú vísitala sem verður notuð til þess að verðtryggja greiðslubyrðina.

Upphaflega gætti nokkurs misskilnings um hvað væri verið að gera. Menn héldu að það væri verið að fara leið eins og t.d. LÍN er með en þetta er ekki raunverulega tekjutenging greiðslubyrðarinnar heldur meðaltal yfir öll laun í landinu. Það getur skapað vandamál í framtíðinni fyrir suma en léttir byrðarnar fyrir aðra. Ef ég reyni að greina hvað ég á við, er þetta nokkurs konar kynslóðavandamál sem getur komið upp út af vísitölunni. Það stafar af því að laun ungs fólks hækka yfirleitt hraðar en launavísitalan og þegar fólk er komið fram yfir miðjan aldur lækka laun þess þannig að það dregst aftur úr launavísitölunni. Greiðslubyrði fólks á miðjum aldri og yfir í framtíðinni getur því þyngst og það getur skapað vandamál, þ.e. ef það hefur mikið lent inn á þennan svokallaða biðreikning.

Aðgerðin tekur hins vegar ekki á skuldavandanum. Skuldavandinn á Íslandi er eitt af því sem alvarlegasta sem við stöndum frammi fyrir núna. Hann drepur niður greiðsluviljann og leiðir til þess að fólk hefur hugleitt, eins og maður heyrir af fréttum og samtölum, að jafnvel gefast bara upp og flýja land og byrja annars staðar. Það er því gríðarlega mikilvægt að taka á skuldavandanum.

Þótt greiðslubyrðin sé minnkuð er það engin trygging fyrir því að það leiði til þess að höfuðstóllinn lækki sem einhverju nemur í framtíðinni, þannig að fólk sjái að það vinni á höfuðstólinn og einhvers konar eign sé að myndast. Þar af leiðandi bentum við sjálfstæðismenn á að það þyrfti að taka á þessu vandamáli sérstaklega. Þótt greiðsluaðlögunin sé mjög jákvætt fyrsta skref verður meira að koma til og að það þyrfti að leiðrétta of mikla skuldsetningu heimilanna. Þar leggjum við m.a. til að myndaður verði sérfræðingahópur eða þverpólitískur sérfræðingahópur sem fjalli um hvernig væri hægt að gera þetta. Í máli hæstv. félagsmálaráðherra kom fram eindreginn vilji til þess að mynda slíkan hóp til að fylgjast með þróuninni og er það vel. Það er mjög jákvætt skref. Hins vegar stendur eftir of mikil skuldsetning.

Þá víkur að annarri aðgerð sem er búið að gera samninga um á vettvangi Samtaka fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóðanna en það er hin svokallaða sértæka skuldaaðlögun sem kemur að nokkru leyti til móts við þetta. Hún byggir á því að skuldsetning sem er umfram 110% af veði húsnæðis færist á biðreikning og er síðan afskrifuð eftir þrjú ár. Jafnframt fylgja vísbendingar um að þetta geti orðið allt að 80% af veðsetningu. Við sjáum til með það. Þetta byggir á því að kröfuhafar fallist á að gefnar séu eftir kröfur en það mætir þessu vandamáli sem við sjálfstæðismenn höfum bent á, þ.e. skuldavandamálinu, kemur til móts við það og gefur þá von sem þarf, auk þess sem það leiðir til þess að eigið fé byrjar aftur að myndast hjá fólki.

Það sem er skoðað við þessa sértæku greiðsluaðlögun er greiðslugeta einstaklings, sem er í góðu lagi og ekkert óeðlilegt við það, það er hóflegt húsnæði og einn bíll. Ég stoppa svolítið við þessa tvo síðari liði. Af hverju ætti fólk ekki að geta búið í eigin húsnæði? Hvað er hóflegt húsnæði og hver á að skilgreina hóflegt húsnæði fyrir fólk? Í þessu felst þónokkur forræðishugsunarháttur sem mér líkar ekki. Það sem gerist við þetta er að ég býst við að margir flokkist undir að búa í óhóflegu húsnæði og þá eykst væntanlega mjög framboð á stóru húsnæði, eða við getum kallað það óhóflegu húsnæði. Það virkar þá illa á þann markað vegna þess að mikið framboð af húsnæði af vissri tegund þýðir ekkert annað en verðfall á þeirri tegund húsnæðis. Hvað gerist þá? Jú, þá drögum við fleiri inn í þetta vegna þess að þegar húsnæðisverðið lækkar sjáum við fjara undan veðunum og það sem áður var 110% er nú orðið 130% og annað slíkt. Þá þarf að leita inn í þau úrræði og því set ég spurningarmerki við þetta.

Jafnframt er þetta með einn bíl. Þetta gæti skapað einhver vandamál á eftirmarkaðnum, ég skal ekki segja mikið um það. Það er kannski óþarfi að gefa upp skuldir hjá fólki til þess að það geti haldið tvo, þrjá bíla og ég geri svo sem ekki athugasemdir við það. Þetta er sá galli sem ég sé á sértæku skuldaaðlöguninni, hvernig á að skilgreina þetta hóflega húsnæði og smá ótti um hvaða áhrif það getur haft fyrir fasteignamarkaðinn í framtíðinni.

Jafnframt er gríðarlega stórt atriði sem þetta kemur til móts við að þetta eru prívatsamningar á milli banka og skuldunautar. Það þarf ekki dómaraúrskurð, menn fara ekki á vanskilaskrá og annað slíkt. Síðan virðist þetta geta gengið tiltölulega fljótt fyrir sig. Sagt er að eftir að öll gögn hafi borist eigi að líða um þrjár vikur þangað til þetta er afgreitt. Það er ljóst að þetta veitir mörgum þeim heimilum sem ekki nægir greiðsluaðlögun gríðarlega mikla von. Mér skilst að þetta gæti átt við um jafnvel 5.000 heimili og ef við tökum vísitölufjölskyldu þá snertir þetta í kringum 15.000 manns, fullorðna og börn.

Þegar allt er tekið saman virðist þetta vera mjög gott skref í þeirri vegferð að endurskipuleggja skuldir heimilanna. Ég hef sagt það annars staðar að þrjú atriði eru grunnvandamál sem Íslendingar eiga við að stríða í efnahagsmálum sem öll önnur efnahagsvandamál byggja á, það er Icesave, skuldir heimila og fyrirtækja og ríkisfjármálin. Hérna er þá úrlausn sem mér virðist alla vega í fljótu bragði ætla að duga í sambandi við skuldamál heimilanna.

Einnig er einnig jákvætt að í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um fyrirtækin. Þar eru þessi meginprinsipp sem ætti að hafa í huga við endurskipulagningu skulda fyrirtækja höfð að leiðarljósi. Ég sakna þess reyndar að ekki skuli vera ótvírætt í frumvarpinu að það sé vilji löggjafans að starfsmenn og eigendur fyrirtækja í vel flestum tilfellum ættu að hafa möguleika á að eignast fyrirtækin aftur að uppfylltum einhverjum skilyrðum og þá gegn endurgjaldi. Það getur vel verið að hægt sé að útfæra þetta eftir að málið fer inn í nefnd.

Samantekið sýnist mér að þetta séu skref í rétta átt. Það er kannski sérstaklega ánægjulegt fyrir mig sem byrjaði að tala næstum því fyrir daufum eyrum áður en ég einu sinni hugleiddi að fara á þing, í febrúar eða reyndar byrjaði það í október, um að það þyrfti að leiðrétta skuldir heimilanna. Það er ákaflega gleðilegt að sjá að þetta er að gerast núna og á að geta verið ein af þeim vörðum sem þarf að byggja í þeirri leið að endurreisa efnahag Íslendinga. Þetta er einn af mikilvægustu þáttunum vegna þess að það að gefa heimilunum og fyrirtækjunum von um að hlutirnir séu á réttri leið hlýtur að vera eitt aðalatriðið í því að byggja upp.

Eftir að hafa sett fram þessar athugasemdir og mært þetta óska ég hæstv. félagsmálaráðherra til hamingju með þetta.