138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:25]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er allt saman satt og rétt en það er kannski eitt atriði sem ég kom ekki inn á í ræðu minni varðandi það sem tekið er á auk íbúðaveðskulda heimilanna. Félagsmálaráðuneytið hefur beitt sér fyrir því að bílafyrirtæki lækki greiðslubyrði hjá þeim sem skulda í bifreiðum, hjá þeim sem eru með óhóflega skuldabyrði þar. Það er mjög áríðandi í þeirri viðleitni að gera fólki kleift að halda húsnæði sínu. Það er í sjálfu sér ekki markmið með ríkisaðgerðum í kreppu sem þessari að passa það að fólk haldi bifreiðum sínum, heldur að það haldi húsnæði sínu en ef maður lækkar greiðslubyrði bílalánanna eru meiri líkur á að það geti staðið í skilum með húsnæði sitt.

Það er eitt í núverandi stjórnarstefnu sem vinnur raunverulega á móti þessu, það eru boðaðar skattahækkanir, bæði beinir og óbeinir skattar sem vinna gegn þeim ábata sem félagsmálaráðherra hefur beitt sér fyrir að komi í gegnum lækkaða greiðslubyrði á húsnæðis- og bifreiðaskuldum.