138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann fór mjög efnislega og vel yfir málið. Ég fagna því sérstaklega þar sem hann kemur fram og viðurkennir að galli hafi verið á svokallaðri greiðsluaðlögun eins og við bentum einmitt á í sumar og vor, það kveður því við annan tón og ég fagna því sérstaklega.

Eins fagna ég yfirlýsingum hv. þingmanns um að menn fari með þetta með opnum huga inn í félags- og tryggingamálanefnd svo málið geti hugsanlega tekið þar breytingum til batnaðar. Eins kemur hann inn á að hann sé tilbúinn að ræða allar aðrar tillögur, efnislega og málefnalega.

Mig langar að velta því upp sem hv. þingmaður kom inn á að búið sé að viðurkenna að höfuðstólslækkun þurfi að verða eða leiðrétting á stökkbreytum höfuðstólsins, eins og það hefur oft verið kallað. Það er gert í þessum tillögum í lok tímans, þ.e. er lengt í 3 eða 4 ár og síðan fellur það niður. Nú var það upplýst áðan að bankarnir eru — það var upplýst í félags- og tryggingamálanefnd í morgun — að nýju bankarnir eru í raun að færa kröfurnar frá eigendum húsnæðislánanna á kannski 50% afföllum. Þá velti ég því upp við hv. þingmann hvort hann útiloki alveg að skoða það að sú leiðrétting gangi strax niður, það gerist strax en ekki í restina eins og er nú og það gangi til þeirra vegna þess að það er búið í raun og veru að gerast í kerfinu, þ.e. það er búið að færa á milli banka með afskriftum, hvort ekki væri þá eðlilegra að færa þessar afskriftir niður vegna þess að það hefur oft átt sér stað leiðrétting hjá fjármagnseigendum hvað varðar innlánin og eins gagnvart peningamarkaðssjóðunum og ríkið er þegar búið að setja töluverða fjármuni í þetta. Ég veit að þetta kostar allt en mig langar að vita hvort hann væri tilbúinn að skoða það frekar.