138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er búið að vera að afskrifa á milli bankastofnananna og þá er líka spurning um til hvaða dagsetningar fyrir hrunið við færum lánin. Það sem mig langar að velta upp við hv. þingmann er sú hugmynd að menn mundu taka erlendu lánin sem eru um 30%, eins og stendur í greinargerð með frumvarpinu, og færa þau bara öll á upphafsstað, þ.e. reikna þau frá þeim degi sem þau voru tekin og síðan yrðu þau þá reiknuð bara þaðan inn eins og lántakandi hefði tekið íslenskt lán. Þá sætu í raun og veru allir við sama borðið. Það er samt alltaf það sem maður hræðist í þessu, þó að ég haldi því ekki fram að það sé neinn vilji til þess, að einhver mismunun verði á milli þegar menn fara í svona kerfi. Ég óttast mismunun milli einstaklinga og fjölskyldna sem er gríðarlega mikilvægt að verði ekki, þ.e. ef við mundum gera þetta með þessum hætti gætu menn sagt: Við þurfum að leiðrétta hugsanlega eitthvað í sambandi við verðtrygginguna og þessa bólu sem var þar, þá gengi þetta jafnt yfir alla. Ég tek hins vegar heils hugar undir með hv. þingmanni, það er náttúrlega skref í rétta átt að gera þetta svona.

Núna eru mjög erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á. Við erum í dýpstu lægðinni, vonandi förum við að spyrna okkur upp frá botninum. Núna eru menn að fara í fjárlagafrumvarpinu í mjög þungar skattahækkanir og niðurskurð og þá velti ég upp við hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þær aðgerðir sem því fylgja muni draga töluvert úr þeim aðgerðum sem við erum að fara í núna. Nú höfum við sjálfstæðismenn lagt fram aðrar leiðir um það hvernig hægt væri að breyta skattkerfinu og mig langar að heyra hvert viðhorf hans til þess er. Það er einmitt hugsað til þess að hlífa fjölskyldunum við þessar erfiðu aðstæður.