138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:20]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að þessi leið felur í sér flata niðurfærslu í lokin á löngum tíma. Það finnst mér vera alveg sérstakt fagnaðarefni við frumvarpið, að það nær þeim áfanga. Ef ekki hefði verið farin sú leið hér væri ekki verið að leiðrétta út frá forsendubresti og þeim miklu hamförum sem hérna gengu yfir. Þessi niðurfærsla í lánstímalok með þak upp á þrjú ár er algjört grundvallaratriði. Greiðslujöfnunin er eitt. Hún er ágæt og hún er nauðsynleg. Hún kemur fólki vel núna og færir það til réttlætis og sanngjarnari afborgana við erfiðar aðstæður og mikla kaupmáttarrýrnun út af hinu mikla gengisfalli. En almenna niðurfærslan er kjarninn í málinu. Þess vegna er alveg rétt að það má lesa út ákveðna mótsögn í greinargerð, en greinargerð er eitt og frumvarp annað. Það felur þetta í sér.

Af hverju ekki núna? Ég held að við séum ekki komin að þeim tímapunkti enn þá að við getum farið í þessa almennu niðurfærslu fyrir fram, einfaldlega af því að það reynir svo á innviði samfélagsins núna í þessum miklu ágjöfum. Við erum að vinna okkur út úr svo mörgu í einu og við getum t.d. fagnað því mjög að þurfa ekki að leggja til fé til Íslandsbanka, vonandi ekkert til Kaupþings því að kröfuhafar eignast hann o.s.frv., en við erum ekki komin að þessu enn þá. Eins og staðan er núna er of dýrt að gera þetta fyrir fram, sérstaklega eins og ég sagði áðan af því að lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður ríkisins eiga svo stóra hluta af íbúðalánunum. Bankarnir eru ekki með nema hluta þeirra, ef þeir ættu þau öll og ríkið engin hefði verið hægt að skoða mun betur að gera þetta núna. Hvað sem verður á næstu missirum, hvort sem menn breyta takti og færa þetta og gera þetta áður en lánstíma lýkur held ég að það sé mjög skynsamlegt skref núna að fara þessa leið.