138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:24]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það spretta upp margir mjög athyglisverðir fletir á þessari umræðu, sem er mjög jákvætt. Við eigum eftir að ræða miklu betur og af meiri dýpt síðar á þessum vetri og næstu missirum um það sem snýr að verðtryggingu og lánastöðunni sem slíkri. Ég held nefnilega að það sé mjög varasamt að ætla að breyta lánum yfir í óverðtryggð langtímalán til áratuga á breytilegum vöxtum við þá óvissu sem er uppi núna. Verðtryggingin í einhverri mynd fylgir gjaldmiðlinum okkar sem er mjög sveiflukenndur, svo mildilega sé til orða tekið. Ég held að hin stóru úrlausnarefni bíði, sem sé framtíðarfyrirkomulag peninga- og gjaldeyrismála okkar við þessar gjörbreyttu aðstæður. Ef okkur hefur orðið eitthvað ljóst er það sú staða sem uppi er þegar verð á erlendum gjaldmiðli hefur hækkað um 100% á einu ári. Fólk á að fara varlega í það að umbreyta lánunum yfir í óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum af því að við vitum að vextirnir á óverðtryggðum lánum verða aldrei fastir. Þá erum við komin aftur fyrir Ólafslögin þegar lánin brunnu upp á örfáum árum á verðbólgubáli, enginn þorði að lána pening og innlánin brunnu upp á móti og þau óverðtryggð þannig að við þurfum að fara mjög vandlega í þessa umræðu.

Hins vegar fagna ég því mjög að hún sprettur upp af því hvernig hægt sé að breyta lánamarkaðnum þannig að hann verði manneskjulegur, öruggur og sanngjarn í framtíðinni. Það er umræða sem við skulum taka oft, af dýpt og við ýmsar aðstæður hérna í vetur.