138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[14:58]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir — réttara sagt, ég þakka góð orð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur.

Ég fór einmitt í umræðuna um bráðatillögur sjálfstæðismanna um bráðaaðgerðir og tók þar einmitt undir tillöguna um að skipa þverpólitíska nefnd og að við mundum setjast yfir allar þær hugmyndir sem hafa komið fram að undanförnu. Þó ég vilji svo sem virða þá viðleitni hjá hæstv. félagsmálaráðherra að upplýsa stjórnarandstöðuna um þær tillögur sem hann lagði til, þá get ég samt ekki tekið undir að það hafi verið þverpólitísk vinna heldur meira svona upplýsingafundir fyrir okkur um hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera.

Varðandi tölurnar þar sem spurt var um kostnað fyrir ríkissjóð að fara í þessar aðgerðir og þá sérstaklega hvað varðar fasteignalánin, þá skal ég viðurkenna að ég tel að hugsanlega falli einhver kostnaður á ríkissjóð, ég get ekki neitað því. Hins vegar er þarna um ákveðna leið að ræða sem ég benti á sem ætti að gera það að verkum að sá kostnaður ætti að vera í algjöru lágmarki og er þá væntanlega líka verið að horfa til þess hvað eigum við að gera við skuldir lífeyrissjóðanna.

Síðan hvað varðar þá sem þurfa hugsanlega á sértækum aðgerðum að halda. Talað er um hóp 9.000–10.000 einstaklinga, sem geti hugsanlega farið í um 20.000 með þann samdrátt í huga sem verið er að spá t.d. á næsta ári. Þetta er væntanlega sá hópur sem er hugsanlega þegar orðinn gjaldþrota og þarf að vinna í til að koma út úr þeim vítahring sem gjaldþrotalöggjöfin er í á Íslandi í dag.