138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:23]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir tæpti einmitt á máli sem er mjög flókið og erfitt í meðförum, þ.e. hvernig á að afskrifa skuldir fyrirtækja. Það er ekki einhlítt hvernig á að fara að því og í raun er sennilega mjög erfitt að setja þar um almennar reglur. Þó er hægt að setja eina grunnreglu, af því að hér tæptu einhverjir á gullinni reglu í morgun, þ.e. að það sé uppi á borðinu hvað er verið að gera. Ef verið er að afskrifa milljarða hjá einhverjum fyrirtækjum á almenningur heimtingu á því að vita hvaða fyrirtæki það eru. Þetta kemur bankaleynd ekki nokkurn skapaðan hlut við. Hér er verið að fara með almannafé og fé í fyrirtækjum sem hafa í tilfelli sjávarútvegsfyrirtækja fengið auðlindina gefins árum og áratugum saman, veðsett hana út og suður til þess að kaupa sér hlutabréf og standa í fjármálabraski en eru svo komin á hausinn. Ef þessi fyrirtæki fá afskrifaðar stórar fjárhæðir er það einfaldlega sjálfgefið að um það sé upplýst, hverja einustu afskrift, hvernig svo sem hún er tilkomin.

Fleira hangir á spýtunni í þessu, þ.e. hvernig á að afskrifa heimilin. Það þarf að vera almenn jöfn aðgerð. Það er kannski rétt að jafnaðarmennirnir átti sig á því að jafnaðarmennska þýðir að það gengur jafnt yfir alla en ekki er verið að plokka út einstaka vildarvini Samfylkingarinnar eða annarra.