138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin. Það er ánægjulegt að heyra að það sé starfsmaður í hálfu starfi í Brussel sem fylgist með þessum málum. Hins vegar eins og ráðherrann benti á þá ætti þetta í raun að vera mjög stór málaflokkur. Við fáum mjög mikið af þeirri löggjöf sem fellur undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið frá Brussel. Ég hefði talið að það ætti að skipta okkur Íslendinga mjög miklu máli að við komum ekki bara að því þegar Evrópuþingið og framkvæmdastjórnin og ráðherraráðið eru búin að samþykkja tilskipanir eða gerðir sem við þurfum síðan að innleiða í okkar lög. Að ráðuneytið kæmi ekki að með því að taka viðkomandi lög að manni finnst stundum nánast hrá inn í íslenska löggjöf, heldur kæmi í mun meira mæli að gerð laganna sjálfra og undirbúningsvinnunni. Sú vinna er mjög fagleg og opin hjá Evrópusambandinu og þeir leggja mjög mikið upp úr því að sem flestir komi að umsagnarferlinu og komi sínum ábendingum á framfæri. Tilfinningin hefur stundum verið sú að hagsmunasamtök hér á Íslandi virðast jafnvel hafa meiri áhrif á löggjöf Evrópusambandsins en íslensk stjórnsýsla, vegna þess að þau beita sér í þessu umsagnarferli. Ég vil hvetja ráðherrann eindregið til þess að t.d. skoða tillögur Björns Bjarnasonar í skýrslu Evrópunefndarinnar, um það hvernig væri hægt að fylgjast betur með og styrkja þennan þátt, því ég held að við séum öll sammála um það að Íslendingar hafa brennt sig á því að koma ekki fyrr að þessu ferli og koma ábendingum okkur og hugmyndum (Forseti hringir.) á framfæri, sérstaklega hvað það varðar af því við erum eins og lítið land hérna, að það er oft þannig að löggjöf sem Evrópusambandið hefur samþykkt, hentar jafnvel (Forseti hringir.) ekki hér.